143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég rakti þetta nú í ræðu minni áðan, þau sóknarfæri sem ég sé í sjávarútvegsmálum. Eitt af því sem er náttúrlega æpandi staðreynd um Íslendinga, við erum fámenn þjóð á norðurhjara. Ég held að öll þjóðin í heild sinni falli undir skilgreiningu Evrópusambandsins um harðbýlt svæði ef út í það er farið. Við mundum því njóta þeirra lausna sem varða harðbýl svæði, við getum vel haldið því fram, margs konar sérlausna á þeim grundvelli.

Svo er umfang sjávarútvegs. Það er án fordæma að þjóð reiði sig í svo miklum mæli á sjávarútveg. Við höldum því auðvitað fram í samningaviðræðum að við byggjum lífsafkomu okkar á norðurhjara það mikið á sjávarútvegi að við verðum að fá sérlausn í því máli, það höfum við alltaf sagt, alltaf. Við getum ekki gefið eftir forræði yfir þeirri auðlind, við höfum sagt það frá upphafi og alltaf legið fyrir.

Ég held að þetta hafi verið rætt mjög mikið í öllum aðildarviðræðunum og liggi fyrir í fundargerðum þó svo að kaflinn hafi ekki verið opnaður, heldur hefur það verið rætt af hálfu býst ég við hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, sem situr hér í salnum, við utanríkisráðherra alls konar aðildarríkja í öllu þessu ferli. Allt samningaferlið hefur gengið út á það að reyna að ná undanþágum.

Svo er líka einn styrkleiki sem birtist. Við getum haldið því fram einmitt út af styrkleika sjávarútvegs að hann sé ekki ríkisstyrktur á Íslandi. Eitt meginmálið er að sækja undanþágu frá fjárveitingum annarra fyrirtækja innan Evrópusambandsins í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Við getum haldið því fram að sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu séu ríkisstyrkt. Við getum þess vegna beðið um hömlur á (Forseti hringir.) fjárfestingar þeirra í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á þeim grundvelli, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Það þarf ekki svo mikla skapandi hugsun (Forseti hringir.) til að sjá sóknarfærin okkar í þessu máli.