143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

skýrsla Alþjóðastofnunar háskólans um ESB.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að í ræðu á viðskiptaþingi gagnrýndi ég forustumenn samtaka atvinnurekenda fyrir ákveðna hluti en þó einkum fyrir að hafa ekki sýnt í ákveðnum tilvikum nógu mikla samfélagslega ábyrgð og minnti á mikilvægi þess. Ég fór þó í löngu máli yfir allar þær ástæður sem menn hefðu til þess að gleðjast yfir þróuninni og aðbúnaði og aðstöðu atvinnulífsins. Við sjáum það reyndar núna að hlutirnir eru óðum að taka við sér á Íslandi þótt við séum ekki á leið í Evrópusambandið. Það bendir til þess að margt í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu hafi þegar sannast, þ.e. sá munur sem er á aðstöðu til að byggja upp atvinnulíf á Íslandi og í Evrópusambandinu.

Það kann að vera að niðurstaða þeirrar skýrslu sem verið er að vinna fyrir fyrrgreind samtök feli eitthvað annað í sér, við þekkjum í sjálfu sér skoðanir þeirra sem vinna að þeirri skýrslu og málflutning og jafnframt þá leiðsögn sem þeim var veitt við gerð hennar. Það breytir því ekki að það er að sjálfsögðu allt í lagi að ræða um hana og fjalla um þær ábendingar sem þar koma fram og rökræða um það.

Það kann vel að vera og er raunar líklegt að fleiri skýrslur verði unnar um þessi mál og Evrópumál á næstu missirum og árum. Það er allt í lagi að taka þær allar til umfjöllunar í þinginu, hvort heldur sem er formlega eða óformlega. Ég hef ekkert út á það að setja að þessi skýrsla verði rædd þegar hún kemur fram en hún stjórnar að sjálfsögðu ekki dagskrá þingsins frekar en aðrar skýrslur sem kunna að birtast einhvern tímann í framtíðinni.