143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

skýrsla Alþjóðastofnunar háskólans um ESB.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með það að hæstv. forsætisráðherra noti tækifærið og haldi áfram að vega að háskólasamfélaginu með þeim orðum sem hann notaði hér áðan, að hann vissi svo sem til skoðana þeirra sem væru að vinna að því áliti sem aðilar vinnumarkaðarins hafa óskað eftir frá háskólastofnun. Enn og aftur, þetta krossfarartal hæstv. forsætisráðherra er honum ekki sæmandi.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa skýra stefnu í þessu máli, þeir vilja að haldið verði áfram með aðildarviðræður. Þeir telja mjög misráðið að aðildarumsóknin verði dregin til baka og telja að það gangi gegn hagsmunum Íslands. Ríkisstjórn Íslands ber að eiga opið samtal við aðila vinnumarkaðarins um þessa staðreynd. Það blasir ósköp einfaldlega við að svo virðist vera sem ritstjóri Fréttablaðsins hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði í síðustu viku að afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins mætti túlka í eftirfarandi orðum: Við hlustum ekki á mikið af því sem þið segið, enda vitum við betur. En þið getið ekki verið svo vitlaus að skilja ekki að við erum (Forseti hringir.) með ykkur í liði. Það er nákvæmlega sú afstaða sem hér er staðfest af hálfu forsætisráðherra.