143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

þjóðmálaumræðan.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Svo vill til að ég hugsa mér að halda hér áfram á sömu nótum og ræða aðeins viðhorf hæstv. forsætisráðherra til stjórnmálaumræðunnar.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að ræða það mál. Mér finnst stjórnmálaumræðan á Íslandi, umræðan í samfélaginu, hafa verið vond á undanförnum áratug, í aðdraganda hrunsins, og í rauninni líka í eftirleik hrunsins. Mér finnst það vera eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna sem við þurfum að axla hér inni, og við gerum það mörg, að reyna að bæta stjórnmálaumræðuna, reyna að láta af dylgjum, reyna að tala af sanngirni, virða það að fólk hefur ólíkar skoðanir. Hvaða tíðindi eru í því að fólk hafi ólíkar skoðanir? Það getur ekki verið galli, það hlýtur að vera kostur að fólk hafi ólíkar skoðanir. Við leitumst ekki við að búa til samfélag þar sem einhvern veginn allir eru sammála og eiga að vera sammála og allir eiga að vera vinir eða eitthvað svoleiðis. En við eigum að geta rætt saman.

Ég lít svo á að það sé eitt meginhlutverk forsætisráðherra á hverjum tíma að ganga á undan með góðu fordæmi og reyna að stuðla að því, reyna að horfast í augu við það og vera sáttur við að það eru ólíkar skoðanir í samfélaginu.

Nú ætla ég að láta þá skoðun mína í ljós að ég tel hæstv. forsætisráðherra ekki hafa axlað þá skyldu nægilega vel í stjórnartíð sinni. Ég vil eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um það. Mér finnst ekki rétt að gera því skóna að prófessorar sem hafa skoðanir og hafa stundað rannsóknir á landbúnaðarmálum að undanförnu og birt þær rannsóknir í blöðum séu í krossferð eða gefa í skyn á viðskiptaþingi að þar sitji fullt af fólki eða eitthvert fólk sem vill selja landið. Mér finnst ekki rétt að segja við Samtök atvinnulífsins að þau eigi bara að stofna bloggsíðu. Mér finnst ekki rétt að skammast við greiningu og upplýsingu, t.d. frá Seðlabankanum, og gera lítið úr væntanlegri greiningu frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. (Forseti hringir.)

Mig langar að vita og spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða augum lítur hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) skyldur sínar gagnvart þjóðmálaumræðunni? (Forseti hringir.) Hvernig lítur góð rökræða og umræða út að hans mati?