143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hinn 27. maí sl. hafði fréttavefurinn Bloomberg viðtal við hæstv. forsætisráðherra sem þá hafði nýverið tekið við völdum. Hæstv. forsætisráðherra hafði nokkuð hreystileg ummæli um að ríkisstjórnin hygðist hraða afnámi gjaldeyrishafta og boðaði að ný áætlun um afnám hafta mundi liggja fyrir í september á því ári, þ.e. september sl.

Með leyfi forseta hafði fréttavefurinn eftir forsætisráðherra:

„Það mun ekki taka langan tíma að klára verkið.“

Reyndar kom fram í sömu frétt að áætlunin mundi meðal annars byggjast á persónulegum hugmyndum hæstv. forsætisráðherra um hvernig í það yrði farið. Ég vona að ég sé hér alveg á þurru gagnvart því að leggja spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra með því að vitna fyrst og fremst í hann sjálfan en enga aðra.

Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Hverju sætir að ekkert hefur af þessu máli frést?

Það eru að verða liðnir níu mánuðir, en ekki þrír til fjórir, frá því að hæstv. forsætisráðherra mat þetta verkefni þannig að það tæki ekki langan tíma að klára það og að ný áætlun mundi liggja fyrir í september.

Hvar er verkið á vegi statt? Hverjir eru að vinna að því og hvernig?

Hér er um að ræða eitt allra stærsta viðfangsefni sem fram undan er í íslensku efnahagslífi og þjóðarbúskap. Það er hið stóra samhengi hlutanna, gjaldeyrishöftin, uppgjör gömlu bankanna, snjóhengjan og aflandskrónuvandinn og hvernig það allt verður unnið.

Í svona stórmáli sem reynt var að hafa gott þverpólitískt samstarf um á síðasta kjörtímabili og mörg skref voru þá tekin í fullkominni sátt milli allra flokka, eins og að framlengja heimild til að viðhafa gjaldeyrishöft og gera hana ótímabundna, hlýtur maður að spyrja: Hyggst hæstv. ríkisstjórn ekki upplýsa (Forseti hringir.) eitthvað um þau mál með reglubundnum hætti og eiga um það eitthvert samráð hvernig stærsta verkefni efnahagsmála á Íslandi er meðhöndlað?