143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

flóttamenn frá Úkraínu.

[10:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum liðna daga að hörmulegir hlutir ganga nú á í Úkraínu. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði það meðal annars að umtalsefni sínu á Alþingi í gær. Landið er á barmi borgarastyrjaldar og margir óttast að það muni klofna í tvennt, jafnvel með gríðarlegum blóðsúthellingum.

Öllum má í það minnsta vera ljóst að ástandið í landinu er mjög ótryggt. Á sama tíma hafa hins vegar borist fréttir af því að Útlendingastofnun á Íslandi sé að vísa fólki sem hér dvelst og er frá Úkraínu aftur til síns heima. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji ekki koma til greina, í það minnsta tímabundið, að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir að engum verði vísað til Úkraínu að sinni.