143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta Evrópumál er svolítið merkilegt. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að ræða um þessa skýrslu. Ég ætla aftur á móti að benda á að þau okkar sem hafa kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið ættu kannski einfaldlega að hætta því. Hér var þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá sem ekki hefur verið virt. Hvaða öryggi eða tryggingu höfum við fyrir því að ef farið verður í þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður verði hún virt af stjórnmálamönnum?

Ég held að það sé alveg ljóst í raun og veru, ef maður ætlar að vera fullkomlega pragmatískur, að þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á að halda áfram aðildarviðræðum. Því er það svolítið furðulegt — gætum við haft aðeins hljótt þarna eða lokað dyrunum, vinsamlegast?

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum og hliðarsölum.)

Takk fyrir. Því er það í raun fáránlegt og furðulegt að fara fram á að ríkisstjórnin haldi áfram aðildarviðræðum. Það væri langheiðarlegast ef ríkisstjórnin hreinlega hætti viðræðunum því að það er enginn áhugi hjá henni fyrir því að halda þeim áfram.

Það að vera í einhverju millibilsástandi er ekki gott. Fyrir vikið eyðum við gríðarlega miklum tíma þingsins í að ræða um skýrslu og við erum enn að bíða eftir annarri skýrslu sem ríkisstjórnin hefur sagt að verði ekkert mark á takandi. Hvers konar skrípaleikur er þetta eiginlega? Hvers konar sóun er það meðan mjög margir aðrir hlutir eru að gerast? Það er til dæmis mikið uppnám hjá mörgum stéttarfélögum og í raun ekki komið neitt fram hjá forsætisráðherra um hvernig eigi að bregðast við þeim loforðum eða halda þau loforð sem gefin voru í aðdraganda kosninga varðandi ástandið hjá heimilum landsins.

Mjög margir eiga við erfiðleika að stríða og hafa ekki fengið neina lausn á sínum málum. Þar ber kannski hæst þá sem eru á lægstu laununum, t.d. öryrkja sem gjarnan er einungis fjallað um á tyllidögum í þessum sal.

Ég legg því til, þrátt fyrir að ég sé hlynnt því að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu, að við hættum þessum skrípaleik. Þetta er bara skrípaleikur. Af hverju er ekki hægt að fá hrein og klár svör frá ríkisstjórninni um það hvað hún ætlar að gera? Það eru engin hrein og klár svör hér. Við erum í einhverju limbói, sem er eitt ömurlegasta ástand sem hægt er að vera í, að fjalla um eitthvað sem er alveg augljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera á meðan sagt er að 70% Íslendinga vilji halda áfram í aðildarviðræðum. Þó að það sé svona hátt hlutfall höfum við enga tryggingu fyrir því að ef gengið yrði til atkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður yrðu niðurstöður hennar virtar.

Fyrst skulum við sjá hvort hægt sé að virða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Hún er ekki virt. Hvað hefur breyst? Ekkert hefur breyst. Það er ekki neitt sem segir mér eða öðrum að ekki verði hreinlega snúið út úr þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður og sagt að ekki hafi nógu margir mætt á kjörstað o.s.frv.

Ég hvet ríkisstjórnina til að koma með afdráttarlaus svör. Ég vil fá að vita hvort ríkisstjórnin ætli að halda áfram í aðildarferlinu því að þótt gert sé hlé erum við samt í limbóinu um að við séum hugsanlega, mögulega og það er ekki gott. Það er slæmt fyrir mannorð okkar, það er slæmt fyrir þjóðarbúskapinn því að á sama tíma er ekki farið í þann nauðsynlega hlut til dæmis að ræða um EES-samninginn. Það hefur komið fram í þingsal að við séum í raun ítrekað að lenda í því að fara á ákaflega grátt svæði þegar kemur að því að brjóta stjórnarskrána okkar, þegar við samþykkjum þar lög sem fara inn á það gráa svæði.

Ég held að engum sé greiði gerður með því að halda þessu ástandi í þeirri stöðu sem það er í. Það væri mjög gagnlegt að heyra til dæmis í hæstv. utanríkisráðherra, sem hér kemur inn of seint þannig að hann hefur ekki heyrt spurningar mínar. Ég endurtek þær því.

Getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson leyft mér að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra meðan ég er hér í ræðu? (Gripið fram í.) Þú getur flutt ræðu á eftir, hv. þingmaður.

Mér þætti mjög gagnlegt og ég hreinlega krefst þess að fá skýr svör við því hvort ekki sé hreinlega heiðarlegast að ríkisstjórnin hætti að tala tungum tveim og hætti þessum aðildarviðræðum. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að ganga í Evrópusambandið, af hverju erum við þá í millibilsástandi? Hef ég eitthvert garantí frá ríkisstjórninni um það að, segjum sem svo að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald á aðildarviðræðum, sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði virt? Þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá var vanvirt og hefur ekki verið tekið mark á henni. Það var farið í alls konar útúrsnúninga og tekið saman hversu hátt hlutfall Íslendinga mætti á kjörstað o.s.frv. Hvaða garantí getur hæstv. utanríkisráðherra gefið þjóðinni ef farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður? Og það þýðir í raun að við erum að segja að við viljum ganga í Evrópusambandið, það er svo einfalt, það fer engin þjóð í aðildarviðræður án þess að vera hreinlega að segja að hún vilji ganga í Evrópusambandið. Mér finnst líka furðuleg orðræða hér þegar við tölum um aðildarviðræður og látum eins og það sé eins og að kíkja í einhvern jólapakka. Við erum einfaldlega að segja að við viljum ganga í Evrópusambandið, og ég segi það eftir að hafa setið á fjöldamörgum fundum með framámönnum frá Evrópusambandinu sem komu hingað á fund nefndar sem ég var í og utanríkismálanefndar á sínum tíma, þegar fyrrverandi ríkisstjórn var við völd, en þau héldu öll að við værum að segja að við vildum ganga í Evrópusambandið. Þau héldu ekki að við værum að fara að skoða einhvern pakka og voru mjög hissa þegar í ljós kom að það var ekki meiri hluti hjá þáverandi ríkisstjórn um að ganga í Evrópusambandið.

Mér finnst löngu tímabært að við séum heiðarleg um þessi mál. Ég tek fram aftur að ég er mjög hlynnt því að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég vil aðeins gera það ef það er öruggt og búið að tryggja bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eingöngu hægt ef við breytum stjórnarskránni. Þeir þingmenn sem höfðu ekki hugrekki til að tryggja að þær breytingar næðu í gegn á síðasta kjörtímabili ættu aðeins að hugsa sig um áður en þeir krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki bindandi, sem verður einungis kölluð ráðgefandi eða rándýr skoðanakönnun.

Hættum skrípaleiknum. Ég óska eftir skýrum svörum frá núverandi ríkisstjórn. Ég óska eftir því að hún taki afgerandi afstöðu um hvert þetta mál er að fara, því að á meðan við höfum ekki afgerandi afstöðu getum við ekki farið í þá nauðsynlegu vinnu sem lýtur að því að taka ákvörðun um hvert við ætlum að fara til dæmis í gjaldeyrismálum. Það segja mjög margir að við getum ekki verið hér með stöðugleika án þess að skipta um gjaldmiðil. Er verið að skoða aðra gjaldmiðla en til dæmis evruna? Er eitthvert vit í því? Eigum við kannski að taka upp kínverska gjaldmiðilinn fyrst við erum að ganga hálfa leiðina inn í Kína?

Mér finnst óþægilegt hvað þetta er allt loðið. Við getum verið hér í umræðum í marga daga um þessa skýrslu og svo um næstu skýrslu, en förum við eitthvað áfram með því? Er ekki langheiðarlegast að ríkisstjórnin geri það sem hún segir að hún vilji og slíti þessum viðræðum? Væri það ekki langheiðarlegast, hæstv. utanríkisráðherra?

Ég er ekki viss um að það sé best en það er vilji ríkisstjórnarinnar. Þess vegna mundi ég vilja að einhverjir þingmenn hefðu hugrekki til þess að leggja fram slíka tillögu og að um hana yrði fjallað í þingsal. Þá getum við fengið úr því skorið og fengið umræður um það en ekki um skýrslu þar sem þeir sem eru hlynntir því að við göngum í Evrópusambandið lesa eitthvað allt annað út úr henni en hinir sem eru mótfallnir því.

Af hverju eru slíkar skýrslur ekki hreinar og klárar að því leytinu til svo þær séu ekki háðar endalausum túlkunum?

Það er þannig með allt, engir tveir lesa sama blaðið eins. Engir tveir lesa sama ljóðið eins. Ég held að það sé mál að linni og við fáum hér skýr og heiðarleg svör. Síðan skora ég á annaðhvort þá sem eru hlynntir því að halda áfram með aðildarviðræðurnar eða þá sem eru mótfallnir því að koma með skýrar og afdráttarlausar tillögur þar að lútandi í þingsal.