143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir Bleik illa brugðið í dag. Þingmenn Pírata hafa gengið fremst í röðum þeirra sem kallað hafa eftir umræðu og því að menn kynni sér mál. Hvað sem mönnum kann að finnast um skýrsluna er hún umræðunnar virði, hún er ómaksins virði. Ég fagna öllu því sem verður til að efla umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég tel að þetta sé hugsanlega það þýðingarmesta mál sem undir er í íslenskri þjóðmálaumræðu í dag.

Það sem snart mig hins vegar dýpst hjá hv. þingmanni er sú staðreynd að henni virðist ekkert umhugað um að stjórnarherrarnir sem gefið hafa ákveðin fyrirheit verði látnir standa við þau. Það blasir við að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur til dæmis gefið um það skýr fyrirheit fyrir og eftir kosningar að þjóðin fái að velja hvort hún vill framhald viðræðna. Hvaða stjórnmálahreyfing er það sem komið hefur inn í þessa sali á síðasta áratug sem hefur barist af jafn mikilli einlægni og ástríðu fyrir því að fólkið sjálft fái að velja með þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu mál? Hver hefur talað harðast fyrir beinu lýðræði þar sem fólkið fær að velja? Það er hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. Nú er hún hins vegar allt í einu í þessum ræðustól orðin eins og 18 barna faðir úr álfheimum og hefur umskipst í skoðunum sínum. (BirgJ: Hvaða skoðunum?) Hún vill ekki einu sinni hjálpa mér og öðrum við að gegna því hlutverki sem okkur ber skylda til sem stjórnarandstæðingum, að láta þá sem stýra landinu standa við orð sín.

Er þá með einhverjum hætti hægt að skilja orð hv. þingmanns öðruvísi en svo að hún vilji leysa formann Sjálfstæðisflokksins undan margítrekuðu loforði sínu um að þjóðin fái að velja um framhald viðræðna?