143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Því miður tók hv. þm. Össur Skarphéðinsson þátt í því að tryggja að við fáum ekki nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar hér í gegn, breytingar sem gulltryggja að þjóðaratkvæðagreiðslur séu ekki einungis, eins og sumir hafa kallað þær, rándýrar skoðanakannanir. Mér finnst gríðarlega mikilvægt áður en við förum út í það enn og aftur að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna að tryggja að þær verði virtar. Það hefur ekki verið gert.

Mér finnst ótrúlegt að þingmenn leyfi sér að horfa fram hjá því að mjög mikilvæg þjóðaratkvæðagreiðsla um grundvallarbreytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var hunsuð. Hún var hunsuð af öllum flokkum hér rétt fyrir lok síðasta þings.

Ég yrði fyrst manna til að krefjast þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla ef ég hefði eitthvað, eins og hv. þingmaður hefur kannski heyrt, sem geirnegldi það að sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði virt. Það er það sem ég kalla eftir frá ríkisstjórninni, að ef fara á út í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verði hún virt. Ekkert í sögunni tryggir það.

Það er ákallið. Ef við erum að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu verðum við að kalla eftir því að öruggt sé að hún verði ekki vanvirt eins og þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá.