143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Það sem ég kallaði eftir í þessum umræðum er að ríkisstjórnin gefi mér og þjóðinni skilyrðislaus svör um það að ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslna yrði það virt. Og ef á að fara í þá stórtæku aðgerð að draga það til baka þyrfti að sjálfsögðu í kjölfarið eða í aðdraganda þess réttara sagt að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort vilji sé til þess því að það mundi í raun og veru ýta Evrópumálunum til hliðar í einhvern tíma. Mér finnst eðlilegt að þjóðin hafi eitthvað um það að segja.

Það sem ég hef verið að kalla eftir hér í dag eru skýr svör. Ætlar ríkisstjórnin að draga þetta til baka? Ætlar hún að gera það í samráði við þjóðina eða taka einhliða ákvörðun um það? Skiptar skoðanir eru í öðrum stjórnarflokknum um hvernig beri að haga þessu máli, þannig að ég mundi mjög gjarnan vilja heyra í forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem og formanni Sjálfstæðisflokksins um afstöðu í því.

Ef svo ber undir að þjóðinni finnst tilefni til þess að hætta þá ber ríkisstjórninni að sjálfsögðu að virða það. Það sem ég hef ekki heyrt er: Ef þjóðin vill skilyrðislaust halda áfram, meðvituð um að með því að halda áfram séum við í raun og veru að biðja um inngöngu í Evrópusambandið, verður það þá virt? Mér heyrist á öllu að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að halda áfram þessum viðræðum út af því að ekki er meirihlutavilji fyrir því, og því ákaflega furðulegt ástand. Ég tel að það sé í raun og veru á ábyrgð stjórnarmeirihlutans að finna viðeigandi úrlausn á þessum málum. Það er nægilega mikill meiri hluti hér til að gera svo sem hvað sem er. Það er ekki endilega hollt fyrir þingið.