143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa farið vandlega yfir hvaða ríki hafa fengið sérlausnir í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er algjörlega klárt að það er varla nokkurt ríki sem hefur samið um aðild að Evrópusambandinu sem ekki hefur fengið einhverjar sérlausnir. Það eru margar ólíkar ástæður fyrir því.

Ástæðan fyrir sérlausninni til dæmis fyrir landbúnaðinn fyrir norðan 62. breiddargráðu er sú að það er sérlega harðbýlt svæði. Norðurheimskautslandbúnaðurinn hefur sannanlega sérstöðu. En það má ekki gleyma því þegar hv. þingmaður ber saman sterkan sjávarútveg á Íslandi og sérlausn utan um það og síðan veikan landbúnað á harðbýlu svæði að sérlausnaleiðin á líka við um okkur. Það eru fá, ef nokkur, ríki í Evrópu sem byggja að svo miklu leyti til afkomu sína á jafn fáum atvinnuvegum og við. Sjávarútvegurinn markar okkur Íslendingum sérstöðu, við erum með rétt undir 40% af útflutningi okkar í sjávarútvegi.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann, af því að hún hefur verið dugleg í þessum samanburði: Hversu mörg ríki sem hafa gengið í Evrópusambandið hafa búið við þá stöðu að vera jafn háð einum atvinnuvegi og við Íslendingar erum sjávarútveginum?

Það er samanburðurinn sem hv. þingmaður ætti að gera vegna þess að það er svo sannarlega þannig að í aðildarviðræðum gengur Evrópusambandið aldrei gegn grundvallarhagsmunum aðildarþjóðar. Sjávarútvegurinn flokkast undir grundvallarhagsmuni okkar Íslendinga.

Það er út af því sem við sem viljum klára aðildarviðræðurnar teljum að við getum fengið jákvæðan samning út úr þessu og getum fengið sérlausn sem byggir á jákvæðri niðurstöðu fyrir okkur Íslendinga. Mér heyrist vera erfitt fyrir hæstv. utanríkisráðherra að hlusta á þetta (Forseti hringir.) en hann fær væntanlega orðið á eftir.