143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu gagnlegt að þessi langþráða skýrsla sem mikið hefur verið beðið eftir og mikið hefur verið gert með skuli vera komin fram, en ég verð að leyfa mér þann munað héðan úr þessum ræðustóli að spyrja: Hverju bætir hún við, þessi skýrsla? Hún hefur að sjálfsögðu keypt stjórnarflokkunum nokkurn tíma og kostað svo sem 25 millj. kr., sá ég einhvers staðar. En ég verð hreinlega að segja að ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum þegar ég las þessa skýrslu, aðallega vegna þess að mér fannst hún bæta allt of litlu við það sem öllum mátti vera ljóst sem höfðu haft fyrir því að fylgjast með framvindu þessara mála og kynna sér fyrirliggjandi gögn.

Hverju bætir t.d. upptalningin á fyrstu 37 blaðsíðunum við um stöðu viðræðnanna eins og hún var þegar þær fóru í hægagang og að síðan hafi verið gert formlegt hlé á þeim síðasta vor? Ja, ekki miklu fyrir mig a.m.k. Jú, jú, við getum sagt að þetta sé ágæt samantekt, að hafa þetta á einum stað, en allar þessar upplýsingar hafa legið fyrir og voru heyrumkunnar. Til að undirstrika hversu vandræðalegt þetta er þá er í umfjöllun um nánast hvern einasta samningskafla gerð grein fyrir því hvort hann hafi verið opnaður og lokað aftur til bráðabirgða, hann standi opinn og sé til umræðu eða hann hafi ekki verið opnaður.

Þá er heimildin, með leyfi forseta, eins og segir hér t.d. um kafla 3, Staðfesturétt og þjónustufrelsi:

„Í skýrslu utanríkisráðuneytisins frá apríl 2013 er vísað í …“ þetta og hitt.

„Í skýrslu utanríkisráðuneytisins um samningaviðræður Íslands um aðild að ESB frá apríl 2013 er greint frá því að samningskaflinn hafi verið opnaður 12. desember 2011 og sama dag verið lokað til bráðabirgða“ o.s.frv.

Um hugverkaréttindi í skýrslu utanríkisráðuneytisins frá apríl 2013 kemur fram að viðræðum um kaflann hafi verið lokið sama dag og samningskaflinn var opnaður. Höfundar skýrslunnar eru ekkert að fela það að þeir fletta bara upp í skýrslu sem lögð var fram á Alþingi fyrir tæpu ári síðan og þar liggur fyrir hvernig samningaviðræðurnar stóðu á þeim tímapunkti og síðan hefur ekkert gerst.

Þannig mætti fara í gegnum kafla skýrslunnar. Ég las að sjálfsögðu með athygli bæði það sem fjallar um laga- og regluverkið, B-hlutann. Jú, jú, það er ágætt að hafa samantekt um það hvernig Evrópusambandið varð til í árdaga, Kola- og stálbandalag Evrópu og síðan hvaða stofnun tók við af annarri og hvaða nafnbreytingar urðu í gegnum ferlið. Síðan komu Amsterdam-sáttmálinn og Maastricht-sáttmálinn, Nice-sáttmálinn o.s.frv., en er það eitthvað nýtt? Þurfti langa skýrslugerð til að draga það fram? Nei.

Varðandi efnahagskaflann, 3. kaflann, má kannski segja að þar votti á köflum fyrir því að reynt sé að greina stöðuna eins og hún er núna og hefur þróast undanfarin missiri frá því að Ísland hóf viðræður við Evrópusambandið. En að uppistöðu til er hér safnað saman opinberum hagtölum sem liggja fyrir hjá Eurostat, OECD eða annars staðar og þurfti ekki endilega sjálfstæða skýrslugerð af þeim sökum.

Það sem ég sakna fyrst og fremst í skýrslunni er dýpri greining á t.d. þróun og stöðu Evrópusambandsins þar sem skýrsluhöfundar létu eftir sér að greina stöðuna, greina þróunina, draga af þeirri greiningu faglegar og/eða pólitískar ályktanir. Þær væru að sjálfsögðu skýrsluhöfundanna og ekki annarra eðli málsins samkvæmt, en það hefði verið gagnlegt að fá skýrslu sem var miklu meira á það borðið en þetta hér.

Niðurstöðukaflinn er nú frekar rýr, sex blaðsíður og að verulegu leyti endurtekning á því sem kemur fram í fyrsta hluta skýrslunnar. Með fullri virðingu tel ég því að þessi skýrsla bæti ekki miklu nýju við og var kannski aldrei von til þess að hún gerði það.

Þó verð ég að segja að skýrsla Hagfræðistofnunar er mun betri en framsöguræða hæstv. utanríkisráðherra hér í gær. (Utanrrh.: Nei.) Jú, (Utanrrh.: Nei.) það segi ég nú alveg hiklaust. Það meina ég og ég ræð minni afstöðu og mínum orðum hér, herra forseti, í ræðustólnum (Utanrrh.: Ertu viss?) hvað sem hinn skeggprúði hæstv. utanríkisráðherra umlar hér úti í salnum. Það er þannig. Mér fannst það ekki uppbyggilegt að hæstv. ráðherra sargaði hér í 12 mínútur eða svo af 20 mínútna ræðutíma sínum á því sem liðið er og breytir engu um stöðu mála nú. Stóran hluta af rest ræðutímans notaði hann í raun og veru í níð um Evrópusambandið, sem ég tel algerlega ástæðulaust. Mér fundust mörg ummæli hæstv. ráðherra um Evrópusambandið og stöðu mála í Evrópu ekki samboðin utanríkisráðherra Íslands. Hversu heitsannfærður sem hann er um að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið þá er hann utanríkisráðherra Íslands. Þetta er væntanlega maðurinn sem ætlar að eiga samskipti við kollega sína í þeirri heimsálfu sem við eigum mest viðskipti og samskipti við á næstu mánuðum eða missirum. Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra bindur vonir við að verða lengi í embætti en hann vill væntanlega vera „på talefod“, svo maður leyfi sér að sletta, við stjórnmálamenn úti í Evrópu og utanríkisráðherra og aðra slíka. Mér fannst þetta ekki uppbyggileg ræða.

Það er algerlega ástæðulaust að við förum með skoðanaskipti okkar hér og ólíka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu niður á það plan að vera að úthúða löndum eða bandalögum í kringum okkur. Ræðum það frekar með einhverjum rökum.

Skiptir máli að fá botn í það, a.m.k. til einhvers tíma litið, hvernig tengslum Íslands við Evrópu og Evrópusambandið verður háttað á næstu árum? Já. Menn geta ekki borið á móti því að það er ekki góð staða fyrir land að óvissa og deilur setji mark sitt árum saman á það hvernig Ísland ætlar að haga utanríkispólitískum og viðskiptalegum tengslum sínum af þessu tagi. Það skiptir máli upp á stefnumótun, upp á ákveðna vissu og stöðugleika eftir því sem slíkt er yfirleitt hægt í hverfulum heimi að hafa slíkt til staðar. Það fer orka í það meðan ekki liggur fyrir til einhverra ára a.m.k. hvernig þessum tengslum verður háttað. Þetta er erfitt mál. Það klýfur flokka og fylkingar og flokkar hafa haft fyrir því að skipta um afstöðu, eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, og tekið eina tvo hringi í þessu máli. Og þjóðin, það eru skiptar skoðanir meðal þjóðarinnar; stéttarfélaga og hagsmunasamtaka og hluti þjóðarinnar er í óvissu, bæði um sína eigin afstöðu og það hver framtíðin verður í þessum efnum. Þetta er auðvitað mjög stórt mál og þegar maður kortleggur það og veltir því fyrir sér þá hníga að mínum dómi æ fleiri rök að því að að sjálfsögðu sé það þjóðin sjálf sem þurfi að ekki bara ráða niðurstöðum ef til þeirra kemur heldur líka jafnvel að veita þá leiðsögn: Hvað vill hún að gert sé í þessum efnum varðandi framhald mála?

Ég held þar af leiðandi, og það hefur orðið okkar nálgun í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að mál af þessu tagi væri þess eðlis og staða þess væri slík að í raun og veru væri það þjóðin ein sem gæti kveðið upp úr um málið.

Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fór hér mjög rækilega í gær yfir það sem vantar mjög mikið upp á inn í þessa umræðu og þar á meðal inn í þessa skýrslu til að hún sé á einhverja almennilega dýpt. Það er auðvitað greining á hinum félagsefnahagslegu þáttum málsins og þar á meðal stöðunni og þróuninni í Evrópu ekki síst, sem ég hefði talið langverðmætast að við hefðum góðar greiningar á og reyndum að átta okkur á. Hvernig er þetta að þróast? Hvers konar Evrópusamband mun rísa upp úr því umróti og þeim erfiðleikum sem þar hefur verið við að glíma, og þá ekki bara í lagalegum skilningi eða stofnanalegum skilningi eða að það sé spurning um yfirþjóðlegt vald versus þjóðlegt, heldur og ekki síður hvert félagspólitískt og efnahagspólitískt inntak þess Evrópusamstarfs verður sem við ræðum tengsl okkar við. Það skiptir mig a.m.k. miklu máli. Ég get að sjálfsögðu alveg deilt því sjónarmiði með ýmsum að margt sem gengið hefur á í Evrópu undanfarin missiri vekur áhyggjur í þeim efnum. Það gerir það svo sannarlega. Hlutskipti jaðarríkjanna innan Evrópusambandsins reynist vera mjög erfitt og þeim eru settir harðir kostir. Það er athyglisvert að ræða við stjórnmálamenn frá Írlandi, Grikklandi, Möltu og Portúgal, sem ég hef gert. Ég hef heimsótt mörg þessi lönd og vel að merkja haldið fyrirlestra um glímu Íslands við hrunið. Upp úr þeim heimsóknum stendur að hörðu kostirnir komu frá Evrópusambandinu og Evrópska seðlabankanum en það var skárra að eiga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er athyglisvert líka fyrir okkur sem höfum ákveðna reynslu þar. „Trojkan“ var harðskeytt og það er almannarómur, hygg ég, í Írlandi t.d. og Grikklandi að þeir sem voru þar harðastir í viðskiptum hafi verið talsmenn evrópsku stofnananna.

En hvað á þá að gera, herra forseti? Á að reyna að halda þessum viðræðum áfram? Þjóðin er greinilega þeirrar skoðunar. Skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar hefur áhuga á því að fá botn í þetta mál, að fá samningaborðið þannig að hún geti endanlega gert það upp við sig hvort hún vill ganga þarna inn eða ekki. Ég verð víst að játa, og ekki síður eftir umræðuna hér í gær og ræður talsmanna stjórnarflokkanna, að það er vandséð að það þjónaði tilgangi að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið undir forustu núverandi ríkisstjórnar nema það væri gert að undangengnu þjóðaratkvæði og eindregnum vilja þjóðarinnar sem færist á hendur þeirrar ríkisstjórnar. Mér litist ekki á blikuna ef samningamenn og forustumenn fyrir okkar hönd sem eru búnir að eyða gríðarlegri orku í að sannfæra sjálfa sig um að það sé ekkert um að semja, við fáum ekki neitt, ættu að stjórna þeim leiðangri nema ef þjóðin hefur kveðið skýrt upp úr um að það sé það sem hún vilji. Nú virðist eiga að taka þann rétt af þjóðinni sem henni voru þó gefin mjög sterk fyrirheit um fyrir kosningar. Í lagalegum skilningi ætti orðalagið að vera „í góðri trú“. Ég held að það sé hafið yfir vafa að þjóðin var í góðri trú um að hún yrði leidd að borðinu og fengi að segja álit sitt á því hvort halda ætti þessum viðræðum áfram eða ekki fyrir kosningar. Það eru auðvitað ömurleg svik og sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum ef menn ætla núna að finna sér vandræðaleiðir út undan því loforði.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um ómöguleikann í því sambandi, það væri nú meiri ómöguleikinn — eða er hæstv. ráðherra að segja það að ríkisstjórnin mundi ekki fara að vilja þjóðarinnar ef hún fengi að segja sitt álit? Auðvitað á ríkisstjórnin val, það er alveg hárrétt. Hún getur sagt af sér ef hún vill ekki leiða viðræður sem þjóðin hefur óskað eftir að fari fram. En hún getur ekki hunsað vilja þjóðarinnar eða það á hún a.m.k. ekki að gera.

Er kostur í stöðunni að doka við, bíða bara í einhver missiri eða einhver ár, sjá til? Já, það eru viss rök fyrir því að mínu mati, m.a. vegna þess að margt gæti skýrst á allra næstu missirum. Það eru býsna spennandi atburðir fram undan eins og sjálfstæðiskosning í Skotlandi, loforð Camerons um að Bretar muni fá að segja álit sitt helst að undangengnum samningaviðræðum við Evrópusambandið um að breyta því eða breyta stöðu Bretlands í því. Og fleira mætti nefna í þeim dúr sem vissulega væri ágætt að skýrðist, endanleg niðurstaða varðandi frekari fjárhagslegan samruna Evrópusambandsríkjanna og sérstaklega evruhópsins. Jú, jú, maður vildi gjarnan sjá hvernig það kæmi til með að líta út. Eða er þriðji kosturinn bara sá að slá þetta af og gleyma þessu í bili, eins og mér heyrast talsmenn stjórnarflokkanna vera að tala sig upp í? Er það góður kostur? Nei, hann er að mínu mati að sumu leyti verri en biðkosturinn vegna þess að málinu mun ekki ljúka þar, því miður. Þá er málið bara í óbreyttri stöðu milli fylkinga sem hafa gagnstæð sjónarmið og það er miðjuhópur sem hefur í sjálfu sér ekki gert upp huga sinn. Kosturinn við að finna leið til að fá botn í þetta mál og setja það niður til einhvers tíma er ótvíræður.

Ég er í hópi þeirra sem telja að Ísland eigi ekki að ganga í Evrópusambandið. Ef ég tryði því algerlega sem talsmenn stjórnarflokkanna segja hér, að það verði ekki um neitt að semja og að það sé ekki um neitt að semja og við fáum engar sérlausnir eða undanþágur, þá hefði það freistað mín að fá það á hreint í trausti þess og vissu að slíkur samningur yrði aldrei samþykktur af íslensku þjóðinni sem ekki tryggði okkur forræði yfir sjávarauðlindum o.s.frv. Þess vegna finnst mér mikil mótsögn í þeim málflutningi stjórnarflokkanna og talsmanna þeirra (Forseti hringir.) að eyða hér gríðarlegri orku í að reyna að sannfæra sjálfa sig (Forseti hringir.) og aðra um að ekki sé um neitt að semja, að við fáum engar sérlausnir, en vilja samt alls ekki (Forseti hringir.) fá botn í það mál.