143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi um samningsafstöðuna eða drög að henni og grundvallarhagsmunina sem skilgreindir voru í nefndarálitinu get ég fullvissað hv. þingmann um að í drögum að samningsafstöðu Íslands, sem í raun voru nokkurn veginn fullbúin, alla vega þegar ég fór síðast höndum um þau sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, var rækilega passað upp á kröfugerð varðandi alla þessa grundvallarhagsmuni og aðeins rúmlega það.

Sú samningsafstaða gekk í raun heldur lengra en leiðsögn meiri hluta utanríkismálanefndar frá vorinu 2009. Ég tek undir að það væri mér meira en að meinalausu að hún yrði gerð opinber og ég tel reyndar rétt að gera drögin opinber eins og þau lágu fyrir í þessum fjórum köflum sem ekki var búið að senda inn. En það má að sjálfsögðu vera mat færra manna hvort nokkur ástæða sé til að gera það ekki. Er nokkrum hagsmunum fórnað með því? Ég sé það ekki. Ég mundi fagna því. Þá kæmi það fram — en stundum var annað borið upp á menn — að þarna var rækilega passað upp á alla okkar grundvallarhagsmuni.

Ég get ekki sagt að ég hafi haft í samskiptum við Evrópusambandið eða þá aðila einhvern snertiflöt við það hversu líklegt væri að við fengjum þetta að meira eða minna leyti í gegn, málin voru ekki komin á það stig. Hitt veit ég að Evrópusambandinu voru mjög vel kunnar þær grundvallarkröfur sem við mundum væntanlega reisa. Ég held að ekkert hefði komið þeim á óvart í því. Þeir voru búnir að ljúka sinni rýnivinnu og auðvitað blasa þar við hlutir eins og takmarkanir á fjárfestingum og ólíkt kerfi að öðru leyti.

Á þeim tíma var vissulega dálítið rætt um hvort breytingarnar á sameiginlegu fiskveiðistefnunni hjá Evrópusambandinu mundu að einhverju leyti liðka til um lausn þessara mála þar sem færslan í þeim breytingum væri í átt til aukinnar sjálfsstjórnar svæðanna. Það fóru til dæmis fram umræður um það, (Forseti hringir.) væntanlega í ljósi þess að Evrópusambandið vissi að við mundum krefjast þess (Forseti hringir.) að stjórna þessu sjálfir hér heima.