143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

svar við fyrirspurn.

[13:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar hér í morgun las hæstv. forseti upp bréf frá innanríkisráðuneytinu vegna fyrirspurnar sem við hv. þm. Mörður Árnason lögðum fram fyrir 15 dögum eða svo. Í bréfi ráðuneytisins segir:

„Þar sem það mál er fyrirspurnin lýtur að er nú í kjölfar kæru lögmanns hælisleitanda á forræði ríkissaksóknara telur ráðherra eðlilegt að fyrirspurninni verði ekki svarað fyrr en niðurstaða ríkissaksóknara liggur fyrir.“

Nú er ég ekki alveg sammála ráðuneytinu eða hæstv. ráðherra um að þetta sé um hið sama efni. Ég vil sérstaklega benda á 3. og 4. lið í fyrirspurninni sem varðar rannsókn ráðuneytisins á meintum leka og hver hafi haft forstöðu í þeirri rannsókn og einnig hvað hafi verið til skoðunar í rannsókn rekstrarfélags Stjórnarráðsins á meintum leka á umræddu minnisblaði.

Mig langar því að fara þá leið, hæstv. forseti, að málið verði tekið fyrir á fundi forsætisnefndar og skoðað hvort það sé rétt, sem innanríkisráðherra heldur hér fram, að þetta sé um sama efni.

Þingið getur ekki látið bjóða sér, sem mér finnst vera gert, að á þennan hátt sé snúið út úr fyrirspurn sem alþingismenn leggja fram.