143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf gaman að koma sér í heimspekilega gírinn í samræðum við hv. þingmann. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hann veltir fyrir sér. Evrópusambandið er að þróast, ég held að við séum öll sammála því, og heimurinn er það reyndar allur. Ísland er þátttakandi í þróun heimsins hvort sem við viljum það eða ekki. Ísland hefur áður beygt sig undir, ef svo má segja, alþjóðlega þróun og látið eftir forræði, t.d. dettur mér í hug þegar við tókum upp latneska stafrófið og eltum þar evrópumenn eða metrakerfið. Fjármálaheimurinn í dag er orðinn svo alþjóðlegur og viðskiptaheimurinn að það er næstum því orðið erfitt að sjá glitta í hugtakið þjóðríki í heimsviðskiptunum, hvað þá lítil þjóðríki.

Sú þróun sem vissulega sést í Evrópu þar sem aukin samræming er á reglum o.s.frv. er augljós. Hún er hluti af þróun sem við sjáum á heimsvísu. Ég held að það sé engin tilviljun að þegar maður fær viðskiptabréf, hvort sem þau koma frá Evrópu, Kína, Suður-Ameríku eða Akureyri, eru þau mjög gjarnan á ensku. Þau miða við metrakerfið. Þau miða við ISO-staðla o.s.frv. Ég held að þetta sé þróun sem er ekki eingöngu bundin við Evrópusambandið. Ég held að það sé hvorki heillavænlegt né mjög líklegt til árangurs fyrir Ísland að reyna að standa á móti (Forseti hringir.) slíkri þróun eitt og sér.