143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða hefur til þessa verið skemmtileg og gagnleg og miklu fróðlegri en ég átti von á. Hún hefur líka verið mun málefnalegri en sú staðreynd gaf ástæðu til að ætla að hún yrði að við fengum ekki nema 24 stundir, a.m.k. þingmenn stjórnarandstöðunnar, til að kynna okkur plögg sem með öllu eru talin vera yfir þúsund blaðsíður. Eigi að síður tel ég að þetta ferðalag hafi verið ómaksins virði.

Í þessari umræðu hafa komið fram nýjar upplýsingar. Í skýrslunni er til dæmis í þeirri umfjöllun sem varðar ferlið sjálft að finna nýjar upplýsingar sem ég held að gagnist okkur til að komast að niðurstöðu um það hvort halda eigi þessu ferli áfram eða fresta því eða einfaldlega slíta því. Þær upplýsingar sem koma fram um stöðu landbúnaðarmála, þar sem skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að það séu engin óleysanleg mál þar uppi, eru nýlunda fyrir mig. En ríkisstjórnin hefur með rannsókn sinni komist að þeirri niðurstöðu. Ég var sjálfur ekki algjörlega sannfærður um það.

Það má kannski segja, eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í gær, að hver er trúr sinni sannfæringu. Ég er trúr minni sannfæringu, en það hefur að vísu komið fyrir eins og menn hafa séð á siglingu minni um Evrópuhafið að ég hef stundum breytt afstöðu minni, ég hef stundum nálgast málin úr nýjum áttum ef fram koma nýjar upplýsingar. Það er það sem ég held að menn eigi að gera hér. Ég óttast hins vegar að hæstv. ráðherra sé ekki á þeim brókum að breyta nokkru um sína afstöðu. Hann lýsti því yfir áður en skýrslan kom að ekkert undir sólinni gæti leitt hann til þess að skipta um skoðun. Það er náttúrlega ekki góð byrjun á vegferðinni og þá er ekkert eftir nema það sem drottinn allsherjar notaði til þess að láta Sál á leiðinni til Damaskus skipta um skoðun, hann laust hann eldingu. Ekki ætla ég að óska hæstv. ráðherra þess að fá eldingu í höfuðið. Höfuðið er viðkvæmur partur líkamans og framsóknarhöfuð úr Skagafirði eru sérstaklega viðkvæm.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt fram þessa skýrslu. Ég þakka honum líka ræðu hans í gær. Bæði í þessari skýrslu og ræðunni var fjallað um embættislega stjórnsýslu mína á meðan ég fór með þann hluta framkvæmdarvaldsins sem lýtur að utanríkismálum. Það er kafli upp á hátt á annað hundrað blaðsíður sem beinlínis fjallar um það, skrifaður af dósent fyrir norðan, Ágústi Þór Árnasyni. Það er alveg ljóst í mínum huga að þó að ég sé ekki sáttur við allt sem þar er lýst er það af heilindum skrifað. Meginniðurstaðan er sú að embættisfærslan og stjórnsýslan hafi verið góð.

Hæstv. ráðherra dró það saman í einni setningu í gær þegar hann sagði að stjórnsýslan hefði fyllilega staðið undir faglegum væntingum. Það var drengilega gert af honum. Hann gerði lykkju á leið sína til að segja það án þess að þurfa það. Það skiptir máli, kannski ekki fyrir mann eins og mig sem er þykkskinna af áratuga baráttu, en það vill svo til að þeir embættismenn sem stóðu í eldlínunni og fylgdu fram samþykkt Alþingis hafa sætt kárínum, síðast í leiðara Morgunblaðsins í gær. Og það skiptir máli að maður sem var alltaf annarrar skoðunar og er eftirmaður minn í embætti taki svo drengilega til orða um málflutning þeirra og vinnu. Þótt ég ætli ekki að gefa hæstv. ráðherra einkunn fyrir ræðu hans get ég þó sagt að hann hefur flutt verri ræður en líka betri en það breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar að við sumt í þeirri ræðu ætti hann að staldra og skoða betur. Mér finnst ekki rétt af fulltrúa okkar í samskiptum við erlend ríki að nota svona ræður til þess að hella því sem mér fannst vera flaumur skattyrða yfir Evrópusambandið.

Ég ætla ekki að fara út í það nema bara eitt tiltekið atriði.

Ég staldraði við í sporinu þegar hæstv. ráðherra gerði að umræðuefni þær hörmungar sem eru að dynja yfir þjóðina í Úkraínu og setti þá skuld á reikning Evrópusambandsins, ekki einu sinni heldur tvisvar. (Gripið fram í.) Það er einungis einn stjórnmálamaður í öllum heiminum sem hefur gert það annar en hæstv. utanríkisráðherra og það er Pútín, forseti Rússlands. Þá leiðréttir bara hæstv. ráðherra það.

Hæstv. ráðherra sagði sömuleiðis hér í ræðu sinni í gær að það væri ábyrgðarleysi að halda áfram umsókninni vegna óbilgirni Evrópusambandsins. Hvenær komst hann að þeirri niðurstöðu? Er hæstv. ráðherra búinn að gleyma sinni eigin fortíð? 2009 lagði hæstv. ráðherra sjálfur fram tillögu á þinginu um að hefja undirbúning að umsókn um aðild að Evrópusambandinu. (ÁsmD: Með skilyrðum.) Það var með engum skilyrðum öðrum en þeim sem voru uppfyllt í þeirri umsókn sem við lögðum fram. Þetta var um undirbúning. Það er önnur tillaga sem hann skrifaði svo sjálfur fyrir landsfund Framsóknarflokksins á meðan hv. frammíkallari var enn þá á stuttum buxum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. (Utanrrh.: Þetta er ekki rétt.) Þetta verður hæstv. ráðherra að horfast í augu við, þegar hann lagði fram þá tillögu, með skilyrðum eða ekki, reyndar með fleiri mönnum, hvort honum hafi ekki þótt óbilgirni Evrópusambandsins í stækkunum vera þannig að það réði úrslitum um það.

Ég er sömuleiðis mjög ósammála þeim orðum hæstv. utanríkisráðherra um aðra skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins eru að láta vinna, að hún sé unnin eftir pöntun. Hið sama mætti þá segja um þessa skýrslu. Ég vil hins vegar segja skýrt að ég treysti háskólasamfélaginu. Þessi skýrsla, svo langt sem hún nær, er af heilindum unnin og algjörlega í anda þess erindisbréfs sem hæstv. ráðherra gaf út svo það er ekkert upp á það að klaga. Hitt þekki ég sjálfur úr stjórnsýslu, sem ráðherra í fjórum ríkisstjórnum, að stundum þegar menn panta álitsgerðir hlusta þeir sem skrifa eftir andblæ keisarans. Það kann að vera að þeir skrifi stundum upp í skegg hans en ég hef aldrei vitað til þess að menn bókstaflega selji skoðanir sínar fyrir vinnulaun.

Þessi skýrsla er um margt merkileg. Það sem er merkilegast í henni er sú lagalega úttekt sem Stefán Már Stefánsson prófessor leggur fram. Það er í fyrsta skipti sem prófessor í stjórnskipunarrétti leggur fram tilteknar skoðanir sem Stefán leiðir þar fram. Það er þess vegna sem ég tel, og ekki síst miðað við það hvað við fengum lítinn tíma til að skoða, ég er stöðugt að uppgötva nýtt á handahlaupum mínum um skýrsluna, óhjákvæmilegt annað en að þeirri þinghefð sé haldið að hv. utanríkismálanefnd fái þessa skýrslu til umfjöllunar. Annað væri ódrengilegt og ómálefnalegt miðað við það að þingmenn Framsóknarflokksins voru byrjaðir að upplýsa um skýrsluna í fjölmiðlum sex klukkustundum áður en ég fékk hana í hendur.

Þegar við förum yfir liðin ár og reynum að greina það sem menn hafa helst fært fram gegn Evrópusambandinu hafa rökin verið þau að með aðild værum við að ganga í ríkjasamband þar sem við mundum svelgjast niður, sömuleiðis þau að við mundum tapa yfirráðum yfir auðlindum okkar. Einnegin það að sú leið sem við fórum, sérlausnir, einkum varðandi sjávarútveg, væri ekki fær. Til að svara lykilspurn sem kom áðan frá hv. þm. Birgi Ármannssyni tel ég ekki hægt að ganga í Evrópusambandið öðruvísi en með sérlausnum sem varða sjávarútveg.

Fjórða atriðið er síðan hvort um eitthvað sé að semja. Þurfum við ekki að gleypa allt eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem hér er sérstakur talsmaður Evrópusambandsins og reglufrekju þess, segir að við þurfum að gera?

Þetta er fróðlegt að rekja hér á grundvelli þessarar skýrslu. Þar kemur fram hjá Stefáni Má í fyrsta lagi að Evrópusambandið hefur ekki eðli ríkjasambands og er ekki á leiðinni þangað. Það kemur algjörlega skýrt fram. Það er rangt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan, að öll þróunin væri í þá átt. Hún var það. Sú þróun stoppaði með þeim kaflaskilum sem urðu þegar stjórnarskráin var felld. Og það er ekki hægt að ráða annað af texta Stefáns Más en að sambandið sé ekki á þeirri leið.

Það er rétt að einstakir stjórnmálamenn, stjórnmálaleiðtogar jafnvel, og náttúrlega allir þeir sem sitja á rassi sínum hjá Evrópusambandinu, séu þeirrar skoðunar en ekkert ríki í Evrópu hefur þá skoðun lengur í dag utan eitt, Belgía. Hana skilja menn þegar þeir skoða hina pólitísku stöðu sem þar er uppi. Þar eru þjóðarbrot í miklum ágreiningi þannig að í Belgíu hefur jafnvel ekki verið starfhæf ríkisstjórn á umliðnum árum svo missirum skiptir.

Út af því sem menn hafa sagt hér um Lissabonsáttmálann tekur Stefán Már það algjörlega skýrt fram að hann er ekki ígildi stjórnarskrár. Hann beinir sjónum þvert á móti að þeirri staðreynd að Lissabonsáttmálinn hefur aukið vald þjóðþinga. Hann leiðir sömuleiðis fram að hann hefur styrkt nálægðarregluna sem eykur með vissum hætti lýðræði vegna þess að í því felst að færa valdið heim til svæðanna, heim til fólksins — okkar. Ef við förum einhvern tímann inn í Evrópusambandið og aðstæður breytast og menn vilja þaðan út aftur er það Lissabon sem meðal annars skapar farvegi til þess. Það var bara ekki algjörlega ljóst áður.

Í öðru lagi kemur það algjörlega skýrt fram að Íslendingar munu innan Evrópusambandsins hafa yfirráð yfir öllum sínum auðlindum. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika, eins og um hana er fjallað, sýnir svart á hvítu að hún kallar á sögulega veiðireynslu til að ESB-þjóðir geti krafist kvóta. Sú veiðireynsla er ekki til. Það kemur skýrt fram að ef olía finnst á Drekasvæðinu er hún í okkar höndum. Það kemur líka fram að aðild að Evrópusambandinu breytir engu um forræði og eignarhald á auðlindum í fallvötnum eða á háhitasvæðum. Þessi röksemd er afgreidd og lögð til hvílu með þessu.

Þá um sérlausnirnar. Eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir rakti hér prýðilega í dag teiknar Stefán Már Stefánsson prófessor upp fjögur möguleg frávik frá reglum Evrópusambandsins. Hann nefnir dæmi um öll, líka um varanlegar undanþágur. En það sem skiptir máli fyrir okkur, af því að það var viðmiðið og vinnunálgun hjá okkur, er að hann segir svart á hvítu að sérlausnir dugi.

Við höfum tekist hér á um sérlausnina sem felst í finnska landbúnaðinum. Það væri hægt að taka fleiri. Í mínum huga er það þannig að við förum fram með ýtrustu kröfu í sjávarútvegi. Þá er rétt að greina frá því að það sem mér finnst skorta í skýrsluna er að ekki er sagt frá því að nánast var búið að ljúka samningsafstöðu í sjávarútvegsmálum ágreiningslaust. Hún gengur lengra en það markmið sem þingið lagði þó upp með. Við munum að sjálfsögðu þurfa að gera kröfu um séríslensk fiskveiðistjórnsvæði umhverfis Ísland í krafti þess að íslenskur sjávarútvegur er okkur lífsnauðsynlegur. Hversu lengi á það að vera? Okkar krafa verður að sjálfsögðu á meðan það ástand ríkir.

Í skýrslu sem Björn Bjarnason ritstýrði ásamt okkur sem í þeirri Evrópunefnd sátum er þessi leið rökrædd sérstaklega. Af hverju er það? Vegna þess að það var leiðarhnoðað sem utanríkisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem minn flokkur átti ekki aðild að, þ.e. ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, lagði fram og sagði: Ef menn sækja um aðild er leiðin sérlausnir. Stefán Már er nú búinn að slá í gadda að hún er fær. Svo geta menn deilt um það hvort hún sé varanleg en hún gengur á meðan sjávarútvegur er svo lífsnauðsynlegur sem hann er í dag. Menn geta líka velt fyrir sér hversu lengi það sé. Ég spáði hér í morgun þúsund árum sem er miklu lengra en ég tel að Evrópusambandið muni nokkru sinni lifa. Það er nóg fyrir mig. Ég tel að það séu bara deilur um keisarans skegg, miklu frekar en skegg ráðherrans, hvort slík lausn dugar. Hún dugar mér. Þá er ég búinn að segja það svo það sé alveg skýrt.

Fjórða atriðið sem menn hafa deilt um er það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er sérstakur málsvari fyrir, að ekki sé um neitt að semja. Hún vill ganga lengra en Evrópusambandið. Þá blasir það við að ágreiningslaust mínus einn kafli náði þingið, þrátt fyrir allan ágreininginn í samfélaginu, að afgreiða alla samningsafstöðu án andstöðu — nema eina.

Það kemur fram í þessari umræðu og um það hefur öll þessi umræða snúist núna að það er fyrst og fremst sjór sem er vandinn. Hæstv. ráðherra er búinn að leggja til hvílu staðhæfinguna um að það séu óleysanleg vandamál í landbúnaði vegna þess að það kemur fram í hans eigin skýrslu, en um sjó verðum við að slást. Ég þori ekki í þessum ræðustól að fullyrða að við náum viðunandi niðurstöðu. Á það verður að láta reyna. Það hef ég alltaf sagt. Þess vegna sagði ég þegar við vorum að meta það hversu langar viðræðurnar yrðu að það mundi ráðast af sjó vegna þess að það gæti skrensað í sjó. Ég gerði sjálfur ráð fyrir því, eins og í öllum samningum þar sem menn ætla að reyna af hörku að ná ýtrustu markmiðum, að þá slitni og það kannski tvisvar. Ég get ekki fullyrt við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur eða aðra að við munum ná viðunandi samningum. En ég tel það og byggi það á því að Stefan Füle lýsti því nýlega yfir að það sé skammt í að það sé hægt. Ég byggi það líka á samtölum mínum við marga forustumenn í Evrópusambandinu. Ekkert er þó í hendi fyrr en búið er að toga það fram við samningaborðið.

Þess vegna segi ég: Ekkert í þessari skýrslu hvetur til þess að draga umsóknina til baka. Þvert á móti eru auknar líkur miðað við nýjar upplýsingar þar að við náum árangri. Ég sé ekkert á móti því að við látum á það reyna. Til þess eru samningar. Það eru brýnir hagsmunir í húfi.