143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég get það ekki og allra síst eftir að þessi skýrsla kemur út.

Af því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er sleipust flestra í þessum sal í umræðu um Evrópumálin og fékk forskot á mig til að lesa skýrsluna hélt ég að hún hefði lesið hana. Hún hefur bersýnilega ekki lesið þann part af viðaukanum sem Ágúst Þór Árnason skrifaði þar sem hann greinir frá því að eftir samtöl sín við menn í Brussel hafi honum verið greint frá því að Íslendingar einir þjóða hafi náð því fram að þurfa ekki að aðlaga sig regluverki Evrópusambandsins fyrr en bak þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er svarið. Þetta stendur í skýrslu þessa dásamlega hæstv. ráðherra. Hann svarar fyrir mig í þeim efnum. Án þess að ég vilji vera dónalegur er lágmark eftir að hafa meinað okkur hins lýðræðislega réttar að fá að lesa skýrsluna jafn lengi og þið að hv. þingmaður noti þá tólf tíma sem hún hafði umfram mig til þess að kynna sér skýrsluna. (Gripið fram í.)

Varðandi (Gripið fram í.)sjó og land, af hverju var það ekki opnað? Hv. þingmaður segir: Það bendir til þess að ekki sé hægt að leysa þau vandamál. Aftur vísa ég í skýrslu hæstv. ráðherra. Það segir í skýrslunni, það segir í viðauka Ágústs Þórs Árnasonar, sem hv. þingmaður hefur bersýnilega ekki lesið, að það séu ekki óleysanleg vandamál í landbúnaði. Þar með er því svarað.

Að því er sjó varðar er það einfaldlega eins og ég sagði hér á aflíðandi hausti 2010 um ugg minn að makríll yrði möl í gangverkinu, það gerðist og við ræddum það hér margoft. Það þarf engan hugsuð til þess að komast að þeirri niðurstöðu sem allir vita, nema hugsanlega aðalskýrsluhöfundurinn, að makríll stoppaði það að Evrópusambandið kláraði rýniskýrslu sína. Það var ekkert annað. Það vita allir og það veit hv. þingmaður. Það vissi hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir þegar hún staðfesti það við Morgunblaðið í ágúst 2012. Þannig er það nú bara.