143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að fletta því upp, hann getur bara séð möppuna mína um makrílinn. Það var fyrst nefnt hér, eins og ég orða það, uggur minn, á aflíðandi hausti 2010, að það gæti gerst. Síðan kom það auðvitað fram, og mig minnir að það hafi verið í viðræðum yfir þetta púlt við þann mann sem núna er hæstv. forseti, Einar K. Guðfinnsson, sem það kom algjörlega skýrt fram. Rétt til þess að rifja það upp, og vil ég ekki saka hv. þingmann um að hlusta ekki og muna ekki, komu hingað í umræður í þinginu íslenskir þingmenn eftir að hafa verið úti á fundum, sennilega 2012, ég man ekki hvenær það var, og sögðu í þessum stól að makríllinn stoppaði málið. Það vita auðvitað allir.

Varðandi síðan það sem ég sagði um nýjar upplýsingar um landbúnað er ég ekkert að kvarta en það er auðvitað skrítið að þær skuli vera faldar í viðauka, að þessar miklu og nýju upplýsingar um landbúnaðinn skuli ekki vera í aðalskýrslunni. En ég kvarta ekki. Það er nóg af því í viðaukanum. (Gripið fram í.)