143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski einfaldan skilning, en mér fannst hæstv. ráðherra með því að lesa upp part úr ræðu sinni í reynd staðfesta það sem ég sagði áðan. Ég skildi ræðu hæstv. ráðherra í gær þannig, og mér fannst hann segja það í þeim parsus sem hann fór með hér, að það væri harðdrægni Evrópusambandsins að kenna að brostið hefði á með átökum í Úkraínu. Þannig skildi ég ræðu hæstv. ráðherra í gær. Ég held að hæstv. ráðherra hafi tekið aftur til máls um það í gær.

Ég hef ekki lesið nein blogg eða neitt um þetta. Ég get trúað hæstv. ráðherra fyrir því að mér er stundum legið á hálsi fyrir að vera ekki á Facebook, ég sé þetta ekki. Ég er löngu hættur að lesa komment, herra minn trúr, það eru mörg ár síðan ég las komment í fréttum.

Ég hef verið önnum kafinn við að lesa þær þúsund blaðsíður sem hæstv. ráðherra gaf mér tuttugu og fjórar stundir til að fara í gegnum áður en hann bauð hér til hólmgöngu við þingheim um málið. Það er ekki það sem hægt er að kalla, með leyfi forseta, „fair play“. Það er önnur saga.

Ég ætla ekki að fara í hártoganir við hæstv. utanríkisráðherra, en öll orð hafa mikla þyngd. Það sem utanríkisráðherra segir um hluti og atburði sem eru að gerast erlendis, menn verða að stíga mjög gætilega til jarðar. Mér hnykkti við þegar ég heyrði orð hans í gær. Það er þessi hæstv. utanríkisráðherra sem hefur sagt að hann vilji helst ganga til samninga við Evrópusambandið meðal annars um breytingar á EES-samningnum ef hann fær til þess liðsstyrk annarra þjóða. Heldur hæstv. ráðherra að það sé líklegt til árangurs að byrja á því að berja menn sundur og saman, eins og ég verð að segja að hæstv. ráðherra gerði á ýmsum stöðum ræðu sinnar í gær og hefur orðið að umræðuefni hjá öðrum þingmönnum en mér í dag?