143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi svokallaða sérlausn sem hv. þingmaður nefnir hér gengur óvart í berhögg við núgildandi löggjöf Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála. Það er auðvitað óþarfa staðreyndastagl að halda því fram, en svo er. Verði slík sérlausn samþykkt þarf því að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, skrifa upp löggjöf Evrópusambandsins á þessu sviði til að það þjóni hagsmunum Íslendinga.

Hv. þingmaður getur óskað sér að það sé auðveld og greið leið. Ég verð að játa að mér finnst ekkert í málinu benda til þess að svo sé. Mér finnst hv. þingmaður horfa fram hjá því að þær breytingar sem átt hafa sér stað innan Evrópusambandsins, t.d. frá því fyrir 20 árum þegar hin Norðurlöndin og Austurríki gengu í sambandið og frá því að Bretland og Danmörk gengu í það 20 árum þar á undan, gera lausnir (Forseti hringir.) af þessu tagi enn þá ólíklegri en áður var.