143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir hversu oft hún minntist á þá sem hér stendur, það var gott.

Varðandi Noreg þá kemur það fram í skýrslunni að þessi sjónarmið, um að sjávarútvegsafurðir væru mikilvæg útflutningsvara og að sjávarútvegur hefði afgerandi þýðingu fyrir búsetu og atvinnustarfsemi á strandsvæðum Noregs, voru viðurkennd af hálfu sambandsins, þetta var viðurkennt. Þetta var fyrir þessi svæði sem þarna um ræðir. Engu að síður var ekki fallist á kröfur Norðmanna um varanlegar undanþágur. Við verðum að horfa á það líka, af því að ég veit að hv. þingmaður vill líta málefnalega á málið, við getum ekki horft fram hjá þessu. Það var viðurkennt af hálfu sambandsins að þetta væri mikilvægt en engu að síður var sagt nei.

Varðandi regluna um hlutfallslegan stöðugleika þá er það rétt að fyrst var því haldið hér fram á fyrri hluta kjörtímabilsins, af flokki hv. þingmanns eða talsmönnum í þessu máli, að sú regla mundi tryggja yfirráð Íslendinga yfir eigin fiskimiðum. Síðan var bakkað frá því eftir að Evrópusambandið sjálft benti á að þetta væri ekki hægt og það er auðvitað rétt að gera það þegar maður sér að hlutirnir ganga ekki upp. Þá er farið að tala um að skilgreina Ísland sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði og það mundi leysa okkur undan þessu og bjarga málunum.

Engu að síður kemur fram í skýrslunni, og það er niðurstaða skýrslunnar á bls. 138, að það sé ljóst að ekki sé hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Það verður að halda þeirri staðreynd til haga þegar fólk heldur því fram hér í pontu að reglan um hlutfallslegan stöðugleika mundi tryggja okkur þennan rétt. Það er rangt.