143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það var ekki eina ástæðan. Í upphafi þegar tafirnar urðu á því og erfitt var að aka Evrópusambandinu til að hefja nauðsynlega vinnu var sú staða uppi að Evrópusambandið var að endurskoða sameiginlega fiskveiðistefnu sína. Gefin var út hvítbók. Það kom síðan í ljós þegar menn ætluðu að fara að vinna breytingar á grundvelli hennar að það var meiri ágreiningur innan Evrópusambandsins, t.d. um brottkastið, sem var eitt af því sem var mjög mikilvægt fyrir okkur að fá niðurstöðu í og við höfðum lagt ríkt á við þá um að fella burt allar heimildir til þess, það var ágreiningur um það. Evrópusambandið sagði eðlilega að það væri erfitt fyrir þá, og það var einnig erfitt fyrir okkur, að semja um fiskveiðimálin án þess að vita nákvæmlega hvernig þeirra eigin stefna yrði. Þá var erfitt að bera saman löggjöf sem ekki er að öllu leyti til.

Þegar makríldeilan elnaði, þegar henni vatt fram kom æ skýrar í ljós að það var fyrst og fremst hún sem varð að lokum til þess að ekki tókst af hálfu Evrópusambandsins að ljúka rýnivinnu og afhenda rýniskýrslu, sem var forsenda þess að við gætum lagt fram samningsafstöðu. Samningsafstaðan var hins vegar meira og minna klár af okkar hálfu. Þetta er erfiðasti málaflokkurinn, hugsanlega sá sem mestar deilur gætu staðið um, en innan hópsins held ég að heita megi að það hafi verið ágreiningslaust með hvaða hætti við vildum setja fram kröfur okkar. Eins og ég hef áður sagt í umræðunni þá gengu þær í a.m.k. einu efni framar samningsmarkmiðum okkar þannig að það var borð fyrir báru.