143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þær upplýsingar sem fram hafa komið og hafa raunar komið fram áður varðandi áhrif makríldeilunnar eru áhugaverðar, sérstaklega í ljósi þess að efni makríldeilunnar sem slíkrar snertir með engum hætti aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu. Þarna var verið, eins og reyndar er rakið í skýrslunni, að blanda óskyldu deilumáli inn í aðildarviðræður, sem er auðvitað athyglisvert. Það er líka athyglisvert sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir, að möguleikar einstakra aðildarríkja til að setja fótinn fyrir í viðræðum af þessu tagi hafa aukist á síðari árum með breytingum sem orðið hafa á aðildarstefnunni. (ÖS: Hvað með Bretland og Frakkland?) Það er vitað að Bretar gátu ekki komist inn í Evrópusambandið á sínum tíma vegna neitunarvalds Frakka í tvígang, eins og hv. þingmaður rekur, en það sem hins vegar er ýjað að í skýrslunni er að núverandi fyrirkomulag gerir einstökum aðildarríkjum kleift að þvælast fyrir, setja skilyrði í sína þágu, í þágu prívathagsmuna sinna ef svo má að orði komast, án þess endilega að þurfa að koma fram á sjónarsviðið og beita neitunarvaldi með þeim hætti sem Frakkar gerðu gagnvart Englendingum. En þetta er hliðarspor í þessu.

Hv. þingmaður hefur kannski ekki tækifæri fyrr en síðar í umræðunni til að koma inn á það, en ég vildi gjarnan spyrja hann þeirrar spurningar sem ég hygg að ég hafi spurt aðra hv. þingmenn áður hér í umræðunni: Hefur hv. þingmaður að einhverju leyti séð til lands í sambandi við sjávarútvegsmálin? Hér hefur verið vísað til jákvæðra ummæla. Menn höfðu sagt: Jú, við munum koma til móts við ykkur. Við munum finna lausn sem ykkur hentar, og eitthvað slíkt, en spurningin er sú sem hlýtur að beinast gegn (Forseti hringir.) fyrrum hæstv. utanríkisráðherra er: Var þar einhvern tímann eitthvað sem hönd á festi?