143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum um skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er dálítið kómískt að sjá að skýrslan heitir aðildarviðræður. Það er eiginlega alls staðar fjallað um aðildarviðræður vegna þess að menn hafa sagt að þetta séu engar aðildarviðræður heldur bara aðlögun. Mig langar að velta þessu máli aðeins fyrir mér án þess að tengja það beint eingöngu við skýrsluna og horfa svolítið til baka. Af hverju erum við að ræða ESB-aðild? Hvers vegna erum við að tala um hvort við eigum að vera hluti af Evrópusambandinu eður ei? Ég sagði áðan í andsvari að langt væri síðan ég óskaði eftir því að við fengjum svör. Hvað felst í þeirri aðild? Hvaða möguleika eigum við? Hvernig getum við greint kosti og galla þess hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir okkur Íslendinga?

Því miður hefur orðið með þessa umræðu eins og svo margt annað á Íslandi að þegar lagt er af stað takast á tveir hópar hvor á sínum endanum þar sem menn eru — eins og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni sem segir bara einlæglega: Ég er á móti því að fara inn í ESB, alveg sama hvað er í boði, og hins vegar hópur sem segir: Ég ætla að fara inn í Evrópusambandið, nánast án þess að þurfa að skýra nokkuð út af hverju. Út undan verður gjarnan sá hópur sem er þarna á milli sem er forvitinn, sem vill fá að skoða hvaða möguleika við höfum, hefur farið í gegnum ákveðna reynslu í lífinu, hefur leitað svara í því samstarfi sem við höfum á Evrópugrundvelli. Er eitthvað þar sem gæti bætt stöðu okkar sem þjóðríkis? Ég er í þeim hópi og hef verið það lengi.

Áður en ég kem að þessu langar mig aðeins að benda á að orðræðan vill gjarnan verða eins og hér var áðan. Þegar menn ákváðu á síðasta kjörtímabili að sækja um aðild, leita eftir samningum, sem klárt fyrirheit er um að engin ákvörðun verði tekin um nema þjóðin ákveði það, það er engin ríkisstjórn, ekkert Alþingi sem fer með þjóðina inn í Evrópusambandið. Það er þjóðin sjálf sem velur að ganga inn í Evrópusambandið og skiptir mjög miklu að halda því til haga að þannig hefur umræðan alltaf verið og á að vera. Það er engin önnur leið.

Á þeim tíma vörðust menn og sögðu: Við viljum ekki fara í þessa aðildarumsókn. Það er eðlilegt að spyrja þjóðina áður. Menn töldu sig þá hafa umboð úr kosningum til að fara þessa leið. Það hefur verið samkomulag í stjórnarsáttmála og þess vegna væru menn þess burðugir að sækja um. Svo segja menn: Þetta hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Sjálfur hef ég sagt að svona mál eins og Evrópusambandsumræðan eigi að þola tvær ríkisstjórnir vegna þess að ef það er geðþóttaákvörðun einhvers takmarkaðs tíma þá á það engan rétt á sér. Þjóðin hefur gefið til kynna að hún vill skoða þennan möguleika, kannski af því að hún deilir reynslu minni af því að við höfum haft hér umhverfi, fjármálalegt umhverfi, efnahagslegt umhverfi til áratuga sem hefur kostað kollsteypur í íslensku samfélagi, þar sem við höfum verið með gjaldmiðil sem hefur fallið nánast á tíu ára fresti, fært verulegar eignir frá almenningi yfir til fyrirtækja, endurraðað þannig samfélaginu og við höfum ekkert getað haft um það að segja. Nú síðast með hruninu þar sem kaupmáttur fellur um 30% og við getum í sjálfu sér ekkert gert við því, við erum ekki spurð. Það gerist bara af sjálfu sér.

Lausnirnar hefðu verið öðruvísi ef við hefðum verið með fastan gjaldmiðil og í ákveðnu efnahagsumhverfi. Að vísu hefði það haft sína galla líka. Við skulum ekki segja að það hefði endilega verið einfalt, það hefur sýnt sig hjá öðrum Evrópulöndum, en þá hefði orðið að semja um kaupmáttarrýrnunina. Þá hefði orðið að semja um það hvernig við ætluðum að fara út úr vandanum, hvort taka ætti af launafólki og færa til eða hvort menn yrðu að gera það með auknu atvinnuleysi eða með því að ganga harðar að atvinnulífinu o.s.frv. Þetta er tekið af okkur.

Ég hef dvalið erlendis í tvígang, annars vegar í Danmörku og hins vegar í Bretlandi og hef átt kost á því að njóta þjónustu í þeim löndum. Við vitum öll að við erum Íslendingar. Við viljum vera Norðurlandabúar, við erum í nánu samstarfi á Norðurlandavettvangi en við viljum líka tilheyra Evrópu. Við eigum þar sameiginleg gildi varðandi mannréttindi, félagslega þjónustu og annað slíkt. Raunar hefur það verið þannig, og það gleymist gjarnan í þeirri umræðu sem hér á sér stað, að við tökum í sjálfu sér nú þegar í gegnum EES stærstan hluta af Evrópulöggjöfinni til Íslands án þess að hafa neina möguleika á því að hafa nein áhrif á hvernig sú löggjöf er mótuð. Við erum eingöngu þiggjendur í gegnum EES-samninginn. Þess vegna hafa menn líka velt fyrir sér: Er ekki betra að við komumst að því borði, við séum lýðræðislegir þátttakendur í þessu, séum gefendur og þiggjendur í því samstarfi og höfum þar skoðanir? Mun það breyta einhverju að Ísland er örríki? Það er þó þannig að þegar menn sitja í helstu valdastofnunum Evrópusambandsins eru fulltrúar frá öllum ríkjum og í mörgum tilfellum er neitunarvald. Þetta finnst mér að við eigum að ræða.

En það er miður þegar menn reyna síðan að afvegaleiða umræðuna og segja: Það hefur enginn undirbúningur átt sér stað. Í umræðunni í dag hefur komið ágætlega fram að skýrslur komu frá fyrrverandi ríkisstjórnum, þ.e. undirbúningsvinna sem unnin var af fyrrverandi ráðherrum beggja flokka, þ.e. Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Síðast kom skýrsla sem sett var í gang 2004, henni var skilað 2007, vinna sem var unnin undir stjórn fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar.

Allur þessi undirbúningur og umræða hafði átt sér stað. Þegar ég kom inn í nýjan flokk — ég var einn af stofnendum Samfylkingarinnar árið 2000 — var eitt af fyrstu verkefnunum, ég held á öðru ári Samfylkingarinnar, að ákveða að taka afstöðu á flokkslegum grunni með almennri atkvæðagreiðslu hvort við ættum að fara í það ferli að sækja um og leita eftir samningum við Evrópusambandið. Það var gert með almennum kosningum með mikilli þátttöku þar sem stuðningurinn var yfirgnæfandi. Og það hefur verið stefna okkar að fara í það ferli en það hefur aldrei verið stefnan að ganga inn í Evrópusambandið sama hvað kæmi út úr viðræðunum um hvaða möguleikar væru. Ég hef ítrekað tjáð mig um að ef við höfum ekki forræði yfir auðlindum okkar eins og sjávarauðlindinni eða öðru slíku þá eigum við ekki erindi þangað inn. Vera kann að það sé niðurstaðan með allar þær neikvæðu tölur sem hér eru um að líklega munum við ekki, kannski getum við ekki, það er frekar ólíklegt o.s.frv., að það yrði niðurstaðan. Þá er þessu lokið þar með að mínu mati. Ég held að þjóðin mundi aldrei samþykkja það frekar en um aðrar auðlindir í landinu. En af hverju ekki að láta reyna á það? Af hverju þessi ótti að biðja um svarið?

Hæstv. utanríkisráðherra hóf þessa umræðu í gær með því að fara yfir málið með nokkrum setningum sem ég lagði sérstaklega á minnið eða skrifaði raunar niður, sat og hlustaði á ræðuna en ég hef ekki fengið hana útskrifaða. Efnislega segir hann að þetta sé heildstæð, hlutlæg skýrsla. Ég tek undir að hún er það gagnvart þeim atriðum sem spurt var um og beðið var um að vinna. Við skulum átta okkur á því að það er forskrift fyrir skýrslunni og sá aðili sem vinnur hana er auðvitað trúr því að svara því sem þar er beðið um.

Í öðru lagi kallar hæstv. utanríkisráðherra eftir hreinskiptinni umræðu í samfélaginu. Ég tek heils hugar undir með honum. Þess vegna getur umræðan hér í gær og í dag bara verið upphafið að umræðu. Það þýðir líka að menn geta ekki verið að afgreiða málið á næstu tveim, þrem dögum eða í næstu viku með einhverjum tillögum um að hætta viðræðum eða ljúka þessu með einhverjum hætti. Þá er samfélagsumræðan komin út í allt annað en hvað við eigum að gera í þessari stöðu.

Síðan er sagt að við eigum að horfa til framtíðar, við eigum að skoða hvað bíður okkar. Enn fremur, segir hæstv. ráðherra, að hingað til hafi vantað samstöðu. Það þurfi að efla samstöðu. Við þurfum að vera sammála um hvert við viljum fara. Ef við ætlum að reyna að efla þá samstöðu hljótum við að reyna að koma með tillögur sem leiða í þá átt en ekki að segja: Það þarf ekki að ræða þetta frekar. Við erum með ákveðna skoðun. Það er ekki viðlit og skynsamlegt að fara inn í þetta. Þar með skiljum við eftir um 40% af þjóðinni, 50% eða meira og málið er dautt. Það er ekki nóg samstaða.

Því miður var ræða hæstv. ráðherra um allt annað en það sem hann boðaði í fyrstu setningunum sem ég talaði um áðan. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það en hún fjallaði ekki um framtíðina. Hún fjallaði ekki um samstöðu. Hún fjallaði ekki um að vera með hlutlægar skoðanir á því sem hér er að gerast heldur mótaðist hún af því viðhorfi að ákvörðun liggur fyrir frá hæstv. ráðherra. Hann var einungis að kynna það að þetta breytti engu um afstöðu hans. Hann væri á móti inngöngu og engin ástæða til að ræða það frekar við þjóðina.

Það sem við höfum ekki getað rætt og er ekki tekið mikið fyrir í skýrslunni er samanburður, þó eru settar fram tölur til að bera saman hluti, og það var dálítið athyglisvert að fylgjast með því í viðtali við hæstv. ráðherra þar sem hann var spurður um þetta. Það kom honum á óvart í því viðtali að vaxtabyrði eða vaxtakostnaður væri mismunandi eftir aðildarríkjum. Hagvöxtur væri líka mismunandi. Það kom auðvitað engum öðrum á óvart vegna þess að menn vita náttúrlega að þau lönd eru ekki öll eins, þetta eru ríkjabandalag en ekki eitt ríki. En það var aukasetningin þegar hann var búinn að segja að þetta hefði komið sér á óvart og þetta væri mjög mishátt, þegar hann hugsaði sig aðeins um, andaði djúpt einu sinni og sagði svo: En það er lægra í þessum löndum. Það er akkúrat eitt af því sem er hvati minn til að skoða aðild að Evrópusambandinu. Nýr gjaldmiðill, möguleikinn að vera í nýju umhverfi, gæti hugsanlega leitt til miklu lægri kostnaðar fyrir atvinnulífið, fyrir launþega í landinu, lægri vaxtakostnaðar, lægri húsnæðiskostnaðar og lægra vöruverðs. Við getum leyst gjaldeyrishöftin, við getum leyst verðtrygginguna með því að fara í nýjan gjaldmiðil. Af hverju ekki að skoða það? Af hverju ekki að vinna það áfram? Af hverju ekki að reyna að ljúka því?

Þetta vil ég draga fram í umræðunni og hvetja til þess að við reynum að fá svör. Ég hef gagnrýnt ýmislegt, og af því að ég hef með mér í salnum fyrrverandi formann Bændasamtakanna, hv. þm. Harald Benediktsson, mun hann geta vitnað um það þegar við hittumst á fundi árið 2007, löngu áður en ríkisstjórnin sem sótti um aðild var komin að, en þá var verið að ræða um ESB. Ég mætti þangað af því að Bændasamtökin héldu þann fund til að fræðast um afleiðingar fyrir landbúnaðinn af því að ganga inn í Evrópusambandið. Það sem vakti athygli mína þar var að þriðjungur af þeim fundi, jafnvel helmingur tímans fór í að þar var kominn fulltrúi frá Bændasamtökunum í Noregi — þetta var opinn fundur, þetta var ekki fundur þar sem var verið að bjóða mér sem þingmanni — sem ræddi eingöngu um hvaða taktík ætti að leggja til að hindra það og berjast gegn því að fara inn í Evrópusambandið. Þetta eru hagsmunasamtök og það er allt í lagi en þau eiga ekki að gefa sig út fyrir annað en vera í þeirri hagsmunagæslu. Ég held að þetta sé ein af fyrirstöðunum sem eru í umræðunni, að ákveðin hagsmunaöfl stýra umræðunni í staðinn fyrir að leiða fram heildarhagsmuni. Auðvitað er það rökstuðningurinn hjá flestum. Þetta var gagnrýnt á fundinum og hver tók fyrst þá umræðu upp? Það var fyrrverandi ráðherra og þingmaður, Valgerður Sverrisdóttir, sem átti ekki orð yfir það hvernig fundurinn var lagður upp. Ég ræddi þetta að vísu ekki opinberlega en ræddi við hv. þingmann á eftir. Þetta eru vinnubrögðin sem við búum oft við, að alltaf er verið að búa til svörin fyrir fram. Þess vegna sögðum við: Látum reyna á þetta, förum alla leiðina, finnum hvað er í boði, hvaða möguleikar eru og sjáum svo hvað út úr því kemur. Það er óskin sem ég vona að komi út úr umræðunni að við getum farið með málið til utanríkismálanefndar. Við getum farið með málið til frekari umræðu í samfélaginu. Við fáum skýrslu frá aðilum vinnumarkaðarins sem hefur verið boðuð, kemur núna á næstu vikum, fáum þar með að vita hvað kemur út úr henni vegna þess að þar eru aðrar forsendur gefnar, þ.e. að ég á við að verkefnið er annað þar sem skoðað verður betur hvaða áhrif þetta hefur á atvinnulífið og annað slíkt sem er líka mjög fróðlegt og skiptir mjög miklu að komi fram.

Þá getum við farið að velta vöngum yfir því hvaða leið við höfum út úr þeirri aðstöðu sem við erum komin í að búa til sífellt öflugri og öflugri blokkir þar sem menn eru meira og minna að reyna að draga fram einhverjar getgátur, einhverjar spár, hugmyndir um afleiðingar og annað án þess að fara alla leið.

Ég vil líka segja — og það er ágætt, ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hv. þm. Haraldur Benediktsson var að óska eftir því að fara í andsvar — og mig langar að spyrja hann fyrir fram um það án þess að það sé kannski alveg heiðarlegt, að unnin voru samningsmarkmið fyrir landbúnað. Ég held að þeim hafi verið lokið að mestu. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að leggja þau fram og leyfa okkur að sjá þau vegna þess að um þau var samstaða að mestu. Ef ég veit rétt voru gerðar gríðarlega miklar kröfur sem þyrftu að nást í gegn til að menn mundu undir einhverjum kringumstæðum samþykkja samning.

Það sama þurfum við að gera líka varðandi sjávarútveginn. Þar eru ákveðnar grundvallarhugmyndir sem við viljum ná fram þó að það sé grein, sem ég kem kannski að seinna í umræðunni, sem er í undarlegri stöðu vegna þess að hún byggir verulega á því að veiða kvóta á vegum Evrópusambandsins um allan heim. Nú eru menn að flagga skipum til Grænlands til að fara að veiða fyrir Grænlendinga. Þeir eiga hlut í grænlensku fyrirtækjunum. Hingað má enginn koma og vinna með okkar útgerð með sama hætti. Hversu lengi verður þetta svona? Við erum með frábæran sjávarútveg. Hversu lokað þarf það að vera til að hann standist þær kröfur sem gerðar eru?

Það eru ótrúlega mörg sjónarhorn á þessu. Ósk mín er sú: Ljúkum þessum viðræðum. Ef ekki er samstaða um það (Forseti hringir.) látum þá þjóðina ákveða hvort hún vill ljúka þeim og reynum að leita svara, afgreiðum málið og fylgjum þeirri niðurstöðu. (Forseti hringir.) Það er engin skömm fyrir ríkisstjórn að fylgja þjóðinni jafnvel þótt hún sé annarrar skoðunar, þ.e. að skoðanaágreiningur sé milli ríkisstjórnar og þjóðar.