143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:58]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess að það skuli ekki hafa komið fram í svari hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að hann hefði líka hlustað á erindi sem finnskur erindreki flutti á sama fundi og hann vísar til. Hv. þingmaður skilur vonandi að þeir sem boða til fundar og fá erindreka ráða kannski ekki nákvæmlega hvaða áherslu þeir leggja. Hann sagði sjálfur að erindið hefði verið með öðrum titli þannig að hann hafi ætlast til að fá annað innihald.

Ég skora á hv. þm. Guðbjart Hannesson að gera þá grein fyrir því að hann hafi líka hlustað á hin sjónarmiðin sem komu fram í erindi finnsks fulltrúa sem var þarna á fundinum og tíundaði hvernig standa ætti að því að undirbúa aðildarferlið og undirbúa málefnalega vinnu bænda. Ég fullyrði, og mér fannst glitta í það hjá þingmanninum, að líklega hafa fá samtök lagt í aðra eins faglega vinnu og lýðræðislega umræðu innan sinna vébanda eins og Bændasamtök Íslands um kosti og galla aðildar. Getur hv. þingmaður verið sammála mér um það?