143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nokkur skoðanamunur milli mín og hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í þessum efnum en ég þakka honum þó fyrir að útvíkka umræðuna aðeins. Við þingmenn, og ég þar á meðal, höfum verið nokkuð fastir í frekar afmörkuðum hluta umræðuefnisins fram að þessu. Hv. þingmaður kom inn á fleiri þætti sem minna hafa verið í umræðunni og ég þakka honum fyrir það. Ég tel æskilegt að breikka þessa umræðu vegna þess að spurningin um Evrópusambandsaðild snýst ekki bara um sérlausnir eða undanþágur á sviði sjávarútvegsmála þó að þar sé um mikið og mikilvægt málefni að ræða.

Hv. þingmaður ræðir nokkuð að til þess að vita vissu okkar, áður en við tökum ákvarðanir, þurfum við að ljúka samningaviðræðum og er þá, heyrist mér, fyrst og fremst að vísa til þeirra kafla sem ekki voru opnaðir og ekki var komist að niðurstöðu í. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sama eigi við um aðra þætti eins og t.d. gjaldmiðlamálin. Nú var það samþykkt í ríkisstjórn, reyndar ekki án umræðu eftir því sem fréttir herma, að Ísland mundi ekki leita eftir neinum undanþágum frá því að taka upp evru og verða hluti af evrópska myntbandalaginu með inngöngu í Evrópusambandið. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem átti sæti í ríkisstjórn á þessum tíma, getur upplýst hvort það mat og sú samningsafstaða Íslands sem þar birtist byggði á hagsmunamati í þeim efnum eða á því að menn töldu einfaldlega að ekki væri mögulegt að semja sig undan því.