143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað var búið að ræða ýmsa möguleika, ótengt Evrópusambandsaðild, hvað það varðar að taka upp aðra gjaldmiðla. Ég held að það hafi aldrei komið upp í umræðunni að menn gengju í Evrópusambandið og reyndu að halda íslensku krónunni, ef það er það sem hv. þingmaður er að spyrja um. Ég held að það hafi aldrei komið upp einfaldlega vegna þess að eitt af því sem er mjög gagnrýnisvert hjá okkur er það hvað það kostar að halda íslensku krónunni. Það er gríðarlegur peningur í því að vera með sérgjaldmiðil. Þess vegna kom það aldrei upp svo að ég muni. Ég var ekki inni í vinnunni í einstökum hópum eða þar sem tekin var ákvörðun um einstök mál hvað þetta varðar, en ég man ekki einu sinni að í opinberri umræðu hafi mönnum nokkurn tíma dottið í hug að ef við færum inn í Evrópusambandið, ef það yrði samþykkt, yrði það ein af kröfum okkar að við héldum okkar eigin gjaldmiðli.

Það kann að vera að menn sjái möguleikana í einhverjum hillingum. Það eru náttúrlega lönd innan ESB sem hafa mismunandi tengingar við evruna, bæði frá því að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil en eru engu að síður tengd evrunni og hafa ákveðin vikmörk. Aðrir hafa sagt sig frá því eins og Bretarnir, þeir hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í sjálfu sér en fylgja evrunni að mestu leyti.

Svarið mitt við þessu hlýtur því að vera: Ég hef aldrei látið mér detta annað í hug en að evran verði gjaldmiðill Íslendinga ef við göngum í Evrópusambandið. Það er hluti af því sem hlýtur að þurfa að skoða hvað best, bæði í samningunum og hvað það varðar að leita til þjóðarinnar, það eru einmitt kostirnir við að vera komin með nýjan gjaldmiðil, sem allir eru að kalla eftir. (Gripið fram í.)