143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:09]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í þeirri samantekt sem við höfum haft undir höndum undanfarinn sólarhring eru dregnar saman á einn stað margar af þeim staðreyndum sem búið er að vinna á undanförnum árum. Ég verð reyndar að segja að það kom kannski ekkert óskaplega margt á óvart í henni.

Eins og kom fram í andsvörum áðan á ég mér þann bakgrunn að hafa í núna bráðum áratug fjallað um Evrópusambandið og þýðingu Evrópusambandsaðildar. Árið 2004, þegar ég var kosinn formaður Bændasamtaka Íslands, var starfandi starfshópur í utanríkisráðuneyti á vegum þáverandi utanríkisráðherra sem hafði það hlutverk að fjalla um Evrópusambandið, þróun þess og reynslu þjóðanna sem þá höfðu nýlega gengið inn í sambandið og máta það við hagsmuni Íslands og m.a. við hagsmuni íslensks landbúnaðar. Frá þeim tíma hef ég því markvisst tekið þátt í umræðum um þýðingu Evrópusambandsaðildar og áhrif hennar, sérstaklega áhrif á íslenskan landbúnað vegna þeirra starfa sem ég áður gegndi. Ræða mín litast því svolítið af þeim bakgrunni.

Það er nokkuð sérstakt hvernig til þessarar umsóknar var stofnað og ég vil byrja á því að rekja það í örfáum orðum. Í kosningunum vorið 2009 var innganga í Evrópusambandið einungis á stefnuskrá eins stjórnmálaflokks, Samfylkingarinnar, og ég vil hrósa henni fyrir það að allan tímann hefur hún komið fram af mikilli hreinskilni um að hún vilji ganga í Evrópusambandið og láta á það reyna. Hið sama er ekki hægt að segja um samstarfsflokk hennar í ríkisstjórn sem fór frá í vor, Vinstri græna, þeir fóru í kosningabaráttuna árið 2009 með það á vörum að þeir mundu berjast gegn aðildinni.

Þetta vil ég rifja upp vegna þess að það kom fyrir í kosningabaráttunni 2009 að sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi auglýstu á dreifiriti sem gengur um kjördæmið rétt undir kjördag hvort einhver mundi treysta á trúverðugleika Vinstri grænna þegar þeir segðust berjast gegn Evrópusambandsaðild. Og þeir lentu í vondum málum með því að birta mynd af þáverandi formanni Vinstri grænna, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og lentu í klögum og kærum út af því, en það mál var fljótlega látið niður falla. Nú virðist Vinstri hreyfingin – grænt framboð vera kannski orðinn meira sá flokkur sem hefur tileinkað sér þá stefnu að mikilvægt sé að láta reyna á Evrópusambandsaðild svo að hún fái frið fyrir umræðunni í 20 ár. Ég ætla samt ekkert að draga í efa það sem kemur fram í stefnu flokksins, að hann vilji standa fyrir utan Evrópusambandið, síður en svo. En staðan er aftur á móti mjög sérstök og tilurð þessarar umsóknar þar af leiðandi afar undarleg.

Ég held að í upphafi hafi strax gætt mikils ofmats eða beinlínis vanþekkingar á aðildarferlinu. Það kom mjög fljótt í ljós að menn höfðu kannski fyrst og fremst í huga að við mundum vinna með sama hætti og Svíar og Norðmenn og Finnar sem höfðu gengið inn í Evrópusambandið með því að byrja á því að ræða um samningsmarkmið og setja okkur samningsmarkmið. Strax í þessu ferli öllu varð umræðan um samningsmarkmið mjög áberandi og krafan um að þessir og hinir settu sér samningsmarkmið var mjög áberandi. Í því segi ég að hafi falist ákveðin blekking vegna þess að það var í raun og veru ekkert um samninga. Það finnst mér skýrsla utanríkisráðherra nú staðfesta algjörlega. Þetta var aðildar- og aðlögunarferli, umræður um einstaka málaflokka, sem ég kem að seinna, sem áttu í þessu sambandi að heita samningar.

Það kom líka mjög fljótt í ljós í þessari vinnu, og ég vil nefna sérstaklega fyrsta áfanga þessarar vinnu í aðildarferlinu sem var rýniskýrslugerðin af hálfu Íslands, að þarna var verið að bæta gríðarlega miklu verki inn í íslenska stjórnsýslu sem var öðrum þræði á kafi í því að vinna úr afleiðingum hrunsins og hafði í raun og veru nóg að gera í því. Við höfðum líka úr litlum fjármunum úr að spila og gátum þar af leiðandi ekki stækkað stjórnsýsluna til að takast á við þetta nýja verkefni. Þessu þunga og mikla verkefni var því bætt á starfsmenn Stjórnarráðsins meira og minna og ég ber djúpa virðingu fyrir því starfsfólki sem að þessu hefur unnið fram á þennan dag og hefur að mörgu leyti skilað mjög miklu og góðu verki, ég vil ekki taka það af því. Þar hefur verið unnið mikið verk við mjög erfiðar aðstæður því að við skulum ekki gleyma því að ofan í þetta allt saman komu heilmiklar umræður og breytingar á Stjórnarráðinu sem allt ýtti undir það að athygli manna var dreifð. En strax í þessari fyrstu vinnu, rýniskýrslugerðinni, það sem við getum kallað fyrsta handavinnukaflann, kom í ljós sá veikleiki sem fylgdi okkur allan tímann: Við vorum ekki með fullkomna athygli á því mikilvæga verkefni að takast á við aðildarferlið og sinna hagsmunamálum okkar á hverjum pósti eins vel og mögulegt var.

Sumarið 2010 sótti sendinefnd Evrópusambandsins okkur heim og fundaði m.a. með Bændasamtökum Íslands. Í ljós kom í umræðum á þeim fundi það viðhorf sendinefndarinnar að embættismennirnir voru að uppgötva að á Íslandi ríkti einmitt grundvallarmisskilningur um hvað fælist í aðildarferlinu. Það bar nákvæmlega til þannig að við fulltrúar Bændasamtakanna vorum spurðir: Haldið þið að þið séuð komnir með einhverjar samningskröfur sem við eigum að taka afstöðu til? Þá kom kannski fyrst í ljós að um aðlögunarferli var að ræða og eins og kom fram hjá fulltrúum sendinefndarinnar að ef Ísland væri ekki tilbúið sem aðildarland með stjórnsýslu sína og stoðkerfi, hvort sem það tengdist landbúnaði eða öðrum þáttum stjórnsýslunnar, yrði einfaldlega ekki hægt að ganga frá aðild.

Því var farið í þá leið að bjarga málum þannig að semja um að útbúa mætti sérstaka aðgerðaáætlun um hvernig breyta ætti stjórnkerfinu o.s.frv. Það endurspeglaði líka þann pólitíska veruleika að stuðningurinn við umsóknina og þetta verk allt saman var alla tíð mjög veikur. Það er eitt af því sem ég vil taka hér upp og gagnrýna sérstaklega í þessu aðildarferli. Það er eitt að hafa sótt um aðild — og þá áttum við bara að vinna að því af miklum krafti og mikilli einurð og setja þann kraft í sem þurfti á hverjum tíma — en að gera þetta eins og við gerðum finnst mér gagnrýnisvert. Ég vildi miklu frekar að við hefðum látið einskis ófreistað, með opnum hug og opin augu, að vinna að málinu af fullum krafti og undirbúa þess vegna breytingar á stjórnkerfinu og gera það algjörlega fyrir opnum tjöldum.

Forseti. Ég minntist í upphafi sérstaklega á bakgrunn minn í aðildarferli undanfarinna ára og hér í dag hefur verið mikil umræða um sérlausnir og undanþágur og þá langar mig að vitna sérstaklega í norðurslóðaákvæðið. Því var oft flaggað í upphafi þó að dregið hafi úr því undir lokin. Norðurslóðaákvæðið var og er 142. gr. aðildarsamnings Finnlands og Svíþjóðar og var í norska samningnum sem var felldur. Norðurslóðaákvæðinu var mjög mikið flaggað sem sérstakri lausn fyrir íslenskan landbúnað og að með því væri hægt að útleggja miklar og mikilvægar úrlausnir, varanlegar til lengri eða skemmri tíma. Það var því í raun okkar hlutverk að rannsaka þetta ákvæði. Við komumst að þeirri niðurstöðu, og ég leyfi mér að vitna í rannsóknarskýrsluna sem Bændasamtökin sannarlega keyptu, við skulum bara segja það eins og það er, en við létum valinkunna menn, prófessor Stefán Má Stefánsson og Benedikt Egil Árnason gera ákveðna rannsókn fyrir okkur um þessi efni.

Ef ég má, með leyfi forseta, vísa í niðurstöðu þeirra þar sem segir í samantektinni:

„Í 142. gr. aðildarsamnings kemur fram að framkvæmdastjórnin skal heimila Finnlandi og Svíþjóð að veita langtímainnanlandsstuðning með það að markmiði að tryggja að landbúnaður sé áfram stundaður á tilteknum norðlægum svæðum, en hinn norðlægi stuðningur má vera tengdur hlutlægum þáttum, t.d. hekturum eða höfðatölu dýra, en hann má ekki vera tengdur framtíðarframleiðslu eða leiða til aukningar á framleiðslu eða stigsaukningar í heildarframleiðslu miðað við tilvísunartímabil fyrir inngöngu í Evrópusambandið.“

Ég vek sérstaka athygli á þeim orðum að stuðningurinn megi ekki vera tengdur framtíðarframleiðslu eða aukningu á framleiðslu eða stigsaukningu í heildarframleiðslu miðað við tilvísunartímabil inngöngu í Evrópusambandinu.

Á árunum 1995 og 1996 veitti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Finnlandi og Svíþjóð heimildir til að veita slíka langtímastyrki með ákvörðunum sínum, annars vegar með ákvörðun 1995 og 1996. Upphaflegum ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar hefur verið breytt nokkrum sinnum og eru núverandi ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2009 og 2010. Það segir okkur að það er framkvæmdastjórnin sem heldur á þessu ákvæði, það er ekki á valdi ríkjanna, þetta er ekki þannig lausn að ríkin stjórni þessum málaflokki heima hjá sér.

Síðan segir í niðurstöðum skýrsluhöfunda, með leyfi forseta:

„Við teljum ekki unnt að halda því fram að heimild Finnlands og Svíþjóðar til að viðhalda langtímastyrkjum innan lands til landbúnaðar á norðlægum svæðum sé með öllu varanleg. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur ákvörðun um þá með það að markmiði að landbúnaður verði stundaður áfram á norðlægum svæðum.“

Eftir að þessi rannsóknarskýrsla kom út og lá fyrir varð talsverður hvellur í samskiptum samtaka bænda í Finnlandi og Íslandi, sem kom okkur reyndar talsvert á óvart. En þegar við rýndum það og lögðum á okkur að ræða þetta sérstaklega við finnsku systursamtök okkar kom berlega í ljós að þau gerðu sér fullkomlega grein fyrir því að þetta norðurslóðaákvæði var ekki varanleg undanþága eða sérlausn eða hvað við köllum það. Þau óttuðust um framtíð ákvæðisins og vildu frekar safna inn í Evrópusambandið þjóðum, systur- eða bræðraþjóðum sínum á Norðurlöndum, til þess að auka þrýstinginn á að viðhalda því.

Síðan vil ég segja, herra forseti, varðandi íslenskan landbúnað og norðurslóðaákvæðið, að ég komst fljótt að því að það er ekki lausnin fyrir íslenskan landbúnað. Eins og ég las upp úr um ákvæðið hér áðan er raunverulega gert ráð fyrir því í ákvæðinu að landbúnaðurinn þróist ekki, hann breytist ekki. Upplifunin á þessu ákvæði og staðreyndin er sú að þetta þýðir að norðurslóðalandbúnaður Finnlands er núna orðinn að einhvers konar landbúnaðarsafni. Hann nær ekki að breytast með breyttum tíðaranda og breyttum kröfum samfélagsins og í raun og veru heftir ákvæðið finnskan landbúnað þannig að sérlausnir geta líka verið helsi.

Þetta vil ég draga sérstaklega fram hér vegna þess að í allri þeirri vinnu, og það var svolítið vísað til þess áðan í ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem nefndi varnarlínur Bændasamtakanna, var verkefnið einmitt að útfæra þessar varnarlínur. Þannig gætum við dregið upp á borðið mikilvægustu atriðin sem íslensk stjórnvöld þyrftu að taka tillit til í aðildarferlinu til að við mundum ekki lokast inni í norðurslóðaákvæðinu sem mundi búa okkur til þá hengingaról sem ég kallaði hér áðan „landbúnaðarsafn“. Það er kannski ekki fallegt orð en þýðir bara að við hefðum ekki getað aukið framleiðslu á Íslandi og við hefðum ekki getað breytt áherslum í framleiðslu. Þar af leiðandi hefðum við sett íslensku sveitirnar í kyrrstöðutímabil eða í algjöra kyrrstöðu.

Þetta var verkefnið og við útfærðum sjö varnarlínur sem fjölluðu um hina ýmsu félagslegu og rekstrarlegu þætti íslensks landbúnaðar. Ég verð að segja stjórnvöldunum sem á þessu héldu á kjörtímabilinu til hróss að margt af þessu tileinkuðu þau sér, og ég vil ekkert gera lítið úr því. Það voru hlutir eins og sérstakar varnir Íslands til verndar heilsu manna og dýra, og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon nefndi í dag, flutningur á lifandi dýrum, verndun okkar sérstæðu búfjárstofna, heilbrigðisástand dýra og innflutningur á ferskum og ófrosnum matvælum. Þetta eru allt saman stór mál fyrir íslenskan landbúnað.

Það er mjög áhugavert að lesa núna heimasíðu Matvælastofnunar, mast.is, þar sem sagt er t.d. frá því að íslenskir sérfræðingar hafi nú verið kallaðir til ráðslags úti í Bretlandi til að veita breskum stjórnvöldum liðsinni í að ráðast á þann vanda í kjúklingarækt í Bretlandi sem eru kampýlóbaktersýkingar, þar sem við höfum náð stórmerkilegum árangri í á undanförnum árum. Á heimasíðu Matvælastofnunar stendur nákvæmlega sú setning að það sé örðugt fyrir bresk stjórnvöld að ná þeim árangri sem Ísland hefur náð vegna reglna Evrópusambandsins, þeir geta ekki sett þær reglur til þess að ráðast á þennan vanda eins og íslensk stjórnvöld höfðu heimild til.

Herra forseti. Þetta var aðeins innlit í þennan anga skýrslunnar og mér tókst ekki að fara sérstaklega yfir þær fullyrðingar að auðvelt hefði verið að semja um landbúnað. Það hefði vafalaust verið auðvelt að semja um landbúnaðarkaflann einfaldlega vegna þess að það (Forseti hringir.) höfðu engar umræður orðið um þá samningsafstöðu og samningsafstaðan var ekki undirbyggð (Forseti hringir.) af samtali við samtök bænda á þeim tíma.