143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talar af mikilli þekkingu um þessi mál og hefur unnið með þau og þekkir þau mun betur en sú sem hér stendur.

Mig langar að spyrja um nokkur atriði. Umræðan hefur snúist mikið um það í dag og í gær hvort við getum fengið sérlausnir um eitt og annað og hvort þær séu varanlegar eða ekki varanlegar o.s.frv., en minna um hvaða hag Ísland gæti haft af því að ganga í Evrópusambandið. Hv. þingmaður þekkir vel landbúnaðinn bæði hér á landi og í Evrópusambandinu og víðar en í skýrslunni sem við erum að fjalla um stendur, með leyfi forseta:

„Á undanförnum áratugum hefur sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins tekið breytingum sem stuðla að því að koma hlutum þannig fyrir að framleiðendur líti í meira mæli til markaðsaðstæðna og hagi ákvörðunum um framleiðslu í samræmi við aðstæður hverju sinni. […] Með tímanum hafa byggðamál orðin samofin hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu og þau hafa fengið stöðugt meira vægi.“

Hér er sagt að Evrópusambandið hafi breytt stefnu sinni, horft meira til markaðslögmálanna en um leið hafi þeir áttað sig á því að lögmál hins frjálsa markaðar mundi gera lítið annað en að breikka hið efnahagslega bil á milli ríkjanna og þannig vinna gegn grunngildum Evrópusambandsins. Þess vegna hafi þeir lagt enn meiri áherslu á landbúnaðinn, á byggðastefnuna, á nýsköpun og einmitt ekki á stöðnun, eins og hv. þingmaður talaði um áðan, heldur á byggðastefnu sem jafnar aðstöðu (Forseti hringir.)og kemur hreyfingu á byggðarlögin. Ég vil spyrja hv. þingmann(Forseti hringir.) hvort þetta sé rangur skilningur hjá mér á byggðastefnu Evrópusambandsins.