143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að skýrslan sem hér er til umræðu hafi beinlínis komið mér á óvart eða meginniðurstöður í henni. Ég hefði að vísu kosið að hafa einnig til umræðu aðrar skýrslur sem eru ófullgerðar og við vitum að eru á leiðinni en svo er ekki.

Það sem hefur komið mér helst á óvart í þessum umræðum er hversu málefnalegar þær hafa orðið. Ég er satt að segja alveg undrandi á því. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði fyrr í dag í andsvörum, og kannski sagði hann það líka í ræðunni, að það eru þrír hópar í umræðunni. Það er sá hópur sem telur hagsmunum okkar ekki best borgið með inngöngu í ESB og þá skiptir engu máli hvort einhverjar varanlegar undanþágur eru inni í myndinni eða sérlausnir. Miðað við uppbyggingu og eðli sambandsins eru þeir einfaldlega á móti því. Ég er í þeim hópi og hef aldrei dregið dul á það.

Svo er annar hópur sem vill ganga í Evrópusambandið hvort sem sérlausnir eða undanþágur eru í boði eða ekki, af því að heildarhagsmunirnir eru meiri. Ég get alveg skilið þá afstöðu þótt ég sé ekki sammála henni. Þetta er bara afstaða. Síðan er einn hópur sem er mjög stór, held ég, sem byggir afstöðu sína á því hvort einhverjar varanlegar undanþágur eða sérlausnir eru í boði og afstaða um inngöngu mótast af því. Ég er ekki viss um að við getum alveg hunsað þann hóp.

Það kom upp sú spurning hérna í dag, og ég held að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafi spurt þeirrar spurningar líka, af hverju ekki megi ljúka viðræðum og sjá hvað kemur út úr þeim. Það er út af fyrir sig alveg eðlileg spurning en við stöndum samt frammi fyrir ákveðnum veruleika. Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að vera með ríkisstjórn sem hefur ekki áhuga á inngöngu í Evrópusambandið. Er hægt að ætlast til þess, ég hef sagt það áður og eiginlega talið það fullkomlega fráleitt, að slík ríkisstjórn geti farið og haldið slíkum viðræðum áfram? Það breytir því þó ekki að ekki er alveg sjálfgefið að meiri hlutinn sem hér er geti raunverulega slegið þennan stóra hóp í rot og sagt: Við ætlum að slíta viðræðunum. Það er auðvitað ekki sjálfgefið. Ég hef talsverðar áhyggjur af því vegna þess að ég er í flokki þar sem eru mjög skiptar skoðanir um málið. Ég veit að í mínum flokki er stór hópur sem vill sjá hvort einhverjar sérlausnir séu í boði og hvort þær séu þá hugsanlega eða líklega varanlegar eða að óbreyttum forsendum verði ekki hreyft við þeim. Ég hef alveg skilning á því að sá hópur sætti sig ekki við að vera sleginn í framan með blautri tusku. Ég velti fyrir mér, því að við erum auðvitað í mjög mikilli klemmu með þetta, hvað við eigum að gera. Ég kann eiginlega ekki svarið. Ég velti því fyrir mér meðan ég var að hugsa hvað ég ætti að segja hérna.

Ég hef sagt áður að við verðum að kjósa um hvort við ætlum inn eða ekki með einum eða öðrum hætti. Ég hef spurt áður, er ekki hægt að kjósa um það burt séð frá sérlausnum? Þá segja aðrir: Nei, við viljum vita hvað er í þessu svo við getum tekið afstöðu. Þá hef ég velt fyrir mér hvort möguleiki sé að kjósa um inngöngu með þeim forsendum gefnum að það séu sérlausnir varðandi landbúnað og fiskveiðar eða auðlindasjávarútveginn. Ég veit það ekki, kannski þurfum við að hugsa það. Það má vel vera að hægt sé að útbúa einhverjar slíkar kosningar. Við þurfum auðvitað að finna einhverja lausn.

Ég hef líka velt fyrir mér sérlausnunum. Mér sýnist klár niðurstaða í skýrslunni að það verði engar varanlegar undanþágur. Það kunna að verða einhverjar sérlausnir. Segjum sem svo að við náum sérlausnum fyrir sjávarútveginn, að við fáum að ráða honum, stjórna honum. Þetta eru sérstakar aðstæður. Við erum eyja og við erum norður í hafi og þetta eru svo miklir hagsmunir fyrir okkur, sjávarútvegurinn er svo mikill hluti af tekjum okkar og atvinnu.

Auðvitað er ég sorgmæddur yfir því að síðasta stjórn gat ekki klárað þau atriði, hvort það væri sérlausn eða undanþága, á öllum þessum tíma. Það þýðir ekki að tala um það. Það liggur fyrir að svo er ekki. En hvað með sérlausnir sem við fengjum núna kringum þetta eftir 10 ár, eftir 15 ár? Það eru kannski ekki sömu forsendur. Þá segir Evrópusambandið: Núna er ekki sama staðan hjá okkur. Þið eruð búin að finna olíu og það er alveg ástæðulaust að þessi sérlausn gildi mikið lengur. Þetta er líka vandamál sem er verið að glíma við, heilmikið vandamál. Ég held að við þurfum alla vega að fara yfir það. Ég er ekki alveg tilbúinn að slá menn kalda þó að ég sé andstæðingur Evrópusambandsins og geti veifað þessari skýrslu og sagt: Þetta sagði ég ykkur. Það eru engar undanþágur, tæplega nokkrar sérlausnir nema þá mjög tímabundnar. Ég er ekki alveg tilbúinn að slá menn kalda. Þótt menn trúi því kannski ekki allir þá er ég lýðræðislegri en margir halda og ég er sáttfúsari en margir halda. Ég vil fá einhverja lausn í málið. Ég vil ekki að hún taki mjög langan tíma héðan í frá. Ef það er einhver sérlausn í boði, sem ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telur, vil ég að það komi í ljós á mjög skömmum tíma.

Af því að ég hef svo góðan tíma vil ég benda á að ég held að það sé heldur ekki hægt að ræða þetta einungis út frá skýrslunni. Við verðum líka að tengja það þeim veruleika sem við búum við í dag. Við búum við EES-samning í dag. Hvernig er hann að þróast? Það er hluti umræðunnar. Getur hann haldið áfram án þess að við breytum stjórnarskránni? Eru menn tilbúnir til að breyta stjórnarskrá? Hvað ætla menn að gera? Nú liggur fyrir eftir Lissabon-sáttmálann að mikill meiri hluti af öllu regluverki fer ekki í gegnum löggjöf heldur aðeins reglugerðir sem koma ekki til þingsins, sem varða mikla hagsmuni fyrir okkur. Hvaða þýðingu hefur þessi þróun? Getur verið að það sé minna fullveldisafsal að ganga í Evrópusambandið en að búa við óbreyttan EES-samning? Þá umræðu þurfum við líka að taka, miðað við þá þróun sem hefur orðið. Ég held að allir fræðimenn í dag séu sammála því að við getum ekki látið EES-samninginn gilda mikið lengur án þess að breyta stjórnarskránni. Það er að mörgu að huga og ég held að við verðum líka að taka umræðuna í því samhengi. Ég held að ekki sé óhætt að ákveða núna á grundvelli skýrslunnar, eins og hefur komið fram hjá mörgum stjórnarliðum sem ég er með í stjórn, að slíta öllum viðræðum við Evrópusambandið, að loka málinu á grundvelli skýrslunnar. Málinu er auðvitað ekki lokið með þessari skýrslu og ekki með þessari umræðu.