143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er mjög ánægð að heyra að hv. þingmaður er tilbúinn til að velta hlutunum fyrir sér. Jafnvel þótt hann hafi í hjarta sínu nokkurn veginn gert upp við sig að hann er ekki hlynntur því að ganga í Evrópusambandið finnst honum vel koma til greina að minnsta kosti að íhuga það að klára ferlið sem við erum svo langt komin með.

Það er aðeins hægt að taka upplýsta ákvörðun um málið þegar við erum búin að sjá niðurstöðuna. Þjóðin getur fengið niðurstöðuna, metið kostina og gallana og tekið ákvörðun. Það er fullkomlega eðlileg krafa í mínum huga að við fáum að gera það, að þjóðin fái að greiða atkvæði um niðurstöðuna, til vara ef menn geta ekki fallist á að greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram eða ekki. Að slíta viðræðum án þess að fara með það til þjóðarinnar er algerlega óásættanlegt og það stríðir gegn grunngildum í Sjálfstæðisflokknum. Þar hafa menn talað gegn forræðishyggju þannig að sú meginhugsun getur ekki fallið að þeim gildum Sjálfstæðisflokksins, eins og þau birtast mér alla vega. Skil ég hv. þingmann rétt að hann vilji að þessi skýrsla verði rædd við þingmenn og að beðið verði eftir þeirri skýrslu sem á að koma í apríl og að þeirri umræðu lokinni tökum við aftur umræðu hér í þinginu?