143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fyrir mitt leyti svarað því þannig að ég tel auðvitað eðlilegt úr því að menn eru á annað borð að koma með svona skýrslu inn í þingið að hún fari til þingnefndar. Það er að sjálfsögðu prinsippatriði, alveg sama hvaða vitleysu ég teldi vera í skýrslunni eða ekki eða hversu ljós hún væri. Ég veit að skiptar skoðanir eru um það en ég tel það eðlilegan farveg.

Þegar við erum að tala um að halda áfram viðræðunum þá er það mikill vandi. Við erum í klemmu. Það er klemma fyrir stjórnvöld sem vilja ekki ganga í sambandið að halda áfram einhvers konar aðildarviðræðum. Þess vegna var ég inntur eftir því hvort hægt væri að fara einhverja aðra leið með því að kjósa um það og þá með samningsfyrirvörum, hvort við eigum að halda áfram eða ekki, finna einhverja lausn. Það sem ég er að segja er að nú liggur fyrir að það skiptir svo marga máli, og sérstaklega í mínum flokki, að fá að vita hvort einhver möguleiki sé á sérlausn varðandi stjórn fiskveiða eða ekki, hvort við getum haft þann fyrirvara kláran til að geta tekið afstöðu til ESB. Ég get ekki horft fram hjá þeim veruleika, það er bara veruleikinn. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það sé einhver leið sem við getum kallað lýðræðislega leið í staðinn fyrir segja: Hér er komin skýrsla. Það eru ekki varanlegar undanþágur. Svona liggur í málinu. Það er meiri hluti fyrir því að ganga ekki í ESB og étið það sem úti frýs. Ég er ekki alveg tilbúinn til að fara þá leið.