143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:57]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að upplýsa þingheim um hvað fer fram á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins, en það er auðvitað mörgum ljóst og margir vita að það eru skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og svo hefur alltaf verið. Það eru mismunandi hagsmunir. Hv. þingmaður sagði áðan og taldi upp þá mikilvægu hagsmuni sem hún sæi í þessu, eins og gjaldmiðil og annað. Ég sé margt annað í aðildinni að ESB sem hentar mér ekki. Það er kannski of langt til að telja hér upp. Ég er ekki svo frekur, þó svo margir haldi að ég sé frekur, og þó ég sé í meiri hluta er ég ekki alltaf tilbúinn til að valta yfir minni hlutann. Þess vegna segi ég að ég vil ekki horfa fram hjá þeim staðreyndum að margir eru annarrar skoðunar en ég. Það eru ansi margir sem vilja vita meira og sjá meira áður en þeir taka afstöðu til þess hvort við eigum að ganga í sambandið eða ekki.