143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson var í krafti atgervis síns á sviði lögfræði árum saman valinn til þess að gegna forustu í félagi lögmanna á Íslandi. Það skiptir þess vegna máli þegar hv. þingmaður skuli koma hér og velta því upp og segja það sína skoðun að það sé hugsanlegt að við séum komin á þann stað varðandi EES að sá samningur standist ekki stjórnarskrá. Þá get ég ekki látið hjá líða að segja að ég hef verið þeirrar skoðunar um töluvert skeið, ég hef greint þinginu nokkrum sinnum frá því að tiltekin mál eru að mínu viti í andstöðu við stjórnarskrá. Ég tel sem sagt að það sé kominn tími til þess að við breytum stjórnarskránni burt séð frá ESB og aðild að ESB.

Það sætir líka tíðindum að maður eins og hv. þingmaður, sem hefur þessa sérþekkingu á sviði laga, segir að með tilliti til stjórnarskrár sé okkur hugsanlega betur fyrir komið innan Evrópusambandsins. Ég held að svo sé. Það er eitthvað sem þarfnast skoðunar.

Ég var líka mjög ánægður með að hv. þingmaður virtist ekki vera víðs fjarri því sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér í gær í andsvari við mig, að hann væri algjörlega opinn fyrir því að skýrslan færi til umræðu í viðeigandi nefnd. Ég tel að annað væri þinginu til hneisu eftir að hafa eytt 25 millj. kr. í að gera þessa skýrslu. Sú umræða sem hér hefur staðið um Evrópusambandið hefur verið hin málefnalegasta á þeim grundvelli frá því að það ferli hófst. Ég hef tekið þátt í þeim mörgum. Þetta er sú besta. Menn geta sagt margt um þessa skýrslu, en það er ljóst að hún vekur dálítið skarpar umræður. Nýir hlutir koma þar fram, varðandi úttekt Stefáns Más en líka varðandi ferlið sjálft, hlutir sem jafnvel ég sem fyrrum forsvarsmaður ferlisins hefði ekki treyst mér til að fullyrða en vissi af því, en þarna kom það fram eins og t.d. um landbúnaðinn.

Ég fagna því og hvet hv. þingmann til þess að beita (Forseti hringir.) sér fyrir því að menn fái að ræða skýrsluna í nefnd.