143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ósammála ýmsu í máli hv. þingmanns, en það er eitt atriði sem ég ætlaði að leiðrétta. Það var algengur misskilningur varðandi orðalag stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir að gert skuli hlé á aðildarviðræðum og ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekkert sagt um það að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að ráða því hvað gerist, einungis er sett það skilyrði að ekki verði haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á sér auðvitað rætur í þeirri afstöðu sem birtist sumarið 2009 af hálfu núverandi stjórnarflokka, bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að menn töldu óráðlegt að leggja í þennan leiðangur nema þjóðin væri spurð hvort fara ætti út í það ferli sem aðildarumsókn að Evrópusambandinu er.