143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:23]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt, þetta stendur. Ég lít samt á það sem hálfgert loforð að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar, ég lít þannig á það. Ég tók líka eftir því sem hv. þingmaður sagði að menn voru ósammála þessu á sínum tíma. Ég get vel skilið það. Auðvitað hefði kannski verið langbest fyrir síðustu ríkisstjórn að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ætti að fara í þessa vegferð. En það var ekki gert. Við getum ekkert gert við því núna. Fyrir mér snýst málið um hvar við erum stödd í dag, ekki hvað síðasta ríkisstjórn gerði.

Mér hefur fundist Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum tíðina vera nokkuð á því að ganga í sambandið, en eitthvað breyttist, það gerðist eitthvað einhvern tímann. Ég hef ekki alveg sama vit á þessu og hv. þm. Birgir Ármannsson sem er formaður utanríkismálanefndar, ég ber mikla virðingu fyrir þekkingu hans á þessum málum, en ég er ekki sammála honum.

Ég tel að þetta snúist um að senda sveitina okkar aftur af stað, klára þessar viðræður og leggja það í dóm þjóðarinnar. Við erum alltaf að tala um að við eigum að leggja mál í dóm þjóðarinnar. Forseti Íslands sagði það einmitt við setningu þingsins í haust og hann vitnaði í Jón Sigurðsson þegar hann talaði á sínum tíma um þingið og stöðu þess, almenning og þjóðarviljann þegar Alþingi var að taka til starfa, með leyfi forseta:

„… þjóðin sjálf á höfuðvaldið, og enginn á með að skera úr málefnum þeim, sem allri þjóðinni viðkoma, nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar; kemur það einkum fram í ákvörðun alls þjóðkostnaðar, eður í skattgjaldinu og skattgjaldsmátanum, og þaraðauki í löggjöf og viðskiptum við aðrar þjóðir.“

Þetta var skýrt. Þannig eigum við að starfa. Auðvitað förum við ekki með öll mál í þjóðaratkvæðagreiðslu en þetta er þess eðlis að það á að gera, að mínu mati.