143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:31]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Oddnýju G. Harðardóttur spurninguna. Þetta er mjög góð spurning, ég komst ekkert inn á það í ræðu minni. Nú skal ég fúslega viðurkenna að ég þekki ekki byggðastefnu Evrópusambandsins út í hörgul, en þetta er akkúrat málið og því kynntist ég þegar ég fór til Brussel sem sveitarstjórnarmaður og við skoðuðum m.a. byggðastefnu sambandsins. Þar kom einmitt fram hvernig sambandið styrkir sérstaklega byggðir sem eiga undir högg að sækja. Við fengum lýsingu á því frá pólskum þingmanni sem var frá … nú man ég ekki alveg nafnið á héraðinu, það skiptir ekki öllu máli, en það var bær sem var í algjörri niðurníðslu eftir kommúnistaárin þar, það var víða pottur brotinn í Póllandi. Þessi pólski þingmaður sagði frá því að í heimabæ sínum hafi verið 70% atvinnuleysi og allt í niðurníðslu. Þá kom fram með hugmynd um að byggja þarna garð, Jurassic Park, eða risaeðlugarð. Hugmyndin fór til Evrópusambandsins og var svo vel sett upp að ákveðið var að styrkja verkefnið.

Núna er atvinnuleysi hverfandi í þessum bæ, sagði þingmaðurinn. Það er kannski 3–4% atvinnuleysi. Tæp milljón gesta heimsækir þennan bæ á hverju einasta ári. Uppbyggingin hefur haft þær afleiðingar að allt héraðið hefur byggst upp og blómgast.

Ég hugsa til Skaftárhrepps. Við vorum þarna um daginn, ég og hv. þingmaður. Þar kom fram m.a. í máli einnar konu að fyrir 20 árum síðan voru þar þingmenn og ráðherrar sem klipptu á einhvern borða á Klaustri, þá voru þeir að tala um þriggja fasa rafmagnið. Það er ekki komið enn þá þrátt fyrir góðæri á Íslandi og ég veit ekki hvað og hvað. Enn þá vantar þriggja fasa rafmagn niður í Meðalland og Landbrot. Bændur þar ná varla útvarpinu. Maður finnur það bara sem þingmaður Suðurkjördæmis, ég er búinn að keyra nokkuð oft þarna austur, að það dettur út sími og útvarp á þessum slóðum.

Já, ég held að staða þessara byggða væri allt önnur ef við værum í Evrópusambandinu.