143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem Evrópusambandið leggur áherslu á er að landshlutarnir vinni saman að atvinnumálum og sérstökum málum sem varða landshlutana. Á síðasta kjörtímabili hermdum við svolítið eftir þeim með Sóknaráætlunum landshluta í 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland. Sveitarfélög um allt land lögðu í mikla vinnu til þess að vinna að því verkefni og var mikil ánægja með það í öllum flokkum og öllum sveitarfélögum. Hæstv. ríkisstjórn ákvað að slá það verkefni af. Að vísu komu 85 milljónir í verkefnið eftir 3. umr. fjárlaga, minnir mig, en verkefnið var skorið niður um 75%.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem fyrrverandi sveitarstjórnarmann og landsbyggðarþingmann hvernig honum lítist á þá þróun og stefnu hæstv. ríkisstjórnar hvað þetta varðar. Við vorum að reyna að læra af því góða sem Evrópusambandið er að gera, herma svolítið eftir þeim og læra af reynslu þeirra, það féll í góðan jarðveg og öll sveitarfélögin tóku þátt í því og einnig allir stjórnmálaflokkar. Ekki var litið á þetta sem eitthvert pólitískt verkefni, heldur var það fyrst og fremst hagsmunamál fyrir landshlutana.

Hvernig líst hv. þingmanni síðan á þá þróun sem orðið hefur við breytinguna í ríkisstjórninni? Nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við er eins og þeim sé sama hvernig byggðastefnan virkar, eins og þeim sé sama hvað verður um alla þá vinnu sem sveitarfélögin eru búin að leggja á sig og þá fyrirmynd sem þau hafa í byggðastefnu Evrópusambandsins.