143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:59]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Margir hafa talað í dag um þetta mál, sumir hafa haldið sig við efni skýrslunnar sem um ræðir en aðrir ekki. Ég er búin að lesa skýrsluna þó að ég kunni hana ekki utan að enn þá og ég ætla að halda mig við efni hennar.

Flestir Íslendingar vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Flestir þingmenn, lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar er sú að hag Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem nú er til umræðu, þykir mér afar vönduð og tilgangur hennar er að varpa skýrara ljósi á stöðu Evrópusambandsins, framtíðarhorfur þess og aðildarumsókn Íslands. Skýrslan er tilbúin. Notum hana til gagns.

Svo að ég vindi mér bara strax í grundvallaratriðið í þessu stóra máli, þ.e. umræðuna um hvort ekki væri rétt að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til fyrirliggjandi samnings við Evrópusambandið, sem sagt klára aðildarviðræður, skoða samninginn, kíkja í pakkann og taka svo afstöðu.

Staðreyndin er sú að þessi leið er ekki í boði. Sumir óska þess að hún væri í boði en svo er ekki.

Á bls. 32 í skýrslunni, kafla 6.1, er fjallað um skilyrði fyrir aðild. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið öðluðust gildi. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þá leiðir innkoma nýs ríkis ekki til þess að nýtt samband verði til auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins (fr. acquis communitare). Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins. Þá er að lokum gerð krafa um skilyrði fyrir inngöngu.“

Þetta er það aðildarferli sem Ísland gekk inn í þegar það sótti um aðild 2009.

Og á bls. 37 stendur, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma.“

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ekki er um samningaviðræður að ræða. Við munum ekki fá neina sérmeðferð ef við göngum í ríkjasamband Evrópuþjóða. Ekkert bendir til að við mundum fá varanlegar undanþágur frekar en önnur ríki. Svo allrar sanngirni sé gætt og hlutunum haldið til haga er mögulegt að fá svokallaðar sérlausnir, það er rétt, en þær mundu þó ekki vera í hendi þar sem þær mundu líklega hafa takmarkað lagalegt gildi. En ég kem betur að því síðar og vitna þar í annan stað í skýrslunni.

Hérlendis hefur mikil umræða verið um hvort mögulegt yrði að fá varanlegar undanþágur varðandi landbúnað og sjávarútveg vegna sérstöðu okkar á þeim sviðum. Samkvæmt skýrslunni eru varanlegar undanþágur á þessu sviði ekki í boði. Með leyfi forseta langar mig nú að lesa hluta af texta á bls. 63 en þar stendur meðal annars:

„Við inngöngu nýrra ríkja er því lagalega unnt samkvæmt sambandsrétti að kveða á um undanþágur í viðkomandi aðildarlögum. Hins vegar setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu, hvort sem um er að ræða bindandi eða óbindandi gerðir eða dóma dómstóls ESB. Ástæðan er einfaldlega sú að öll aðildarríkin eiga að mati Evrópusambandsins að sitja við sama borð. Með öðrum orðum eiga leikreglurnar að vera þær sömu fyrir þau öll. Það á auðvitað alveg sérstaklega við um málaflokka þar sem tekin hefur verið upp sameiginleg stefna og sambandið fer að verulegu leyti eitt með vald eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum. Frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur. Þær eru einkum hugsaðar sem aðlögunartími fyrir viðkomandi aðildarríki til að laga sig að breyttum aðstæðum en tímabundnir erfiðleikar Evrópusambandsins sjálfs geta einnig haft áhrif.“

Aðalatriði fiskveiðistjórnar ESB eru sem sagt þau, svo að ég dragi þetta saman, að Evrópusambandið fer eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Þá er átt við leyfilegan hámarksafla, markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna. Af því leiðir að aðildarríkin fara ekki með sjálfstætt vald á þessu sviði og nálægðarreglan gildir ekki. Þetta kemur fram á bls. 61 í skýrslunni. Meginreglan er að fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum í sambandinu.

Svo að ég haldi áfram að vitna í blaðsíðutölin, svo þetta sé alveg á kristaltæru, er á bls. 63 og 64 farið yfir heimildir varðandi varanlegar og tímabundnar undanþágur og sérreglur fyrir tiltekin svæði eða lendur og nokkur dæmi tekin. Þetta hefur verið mikið rætt í dag og í gær, þ.e. munurinn á undanþágu annars vegar og sérreglum eða sérlausnum hins vegar.

Niðurstaðan í þeirri skoðun sýnir að ekki sé um varanlegar undanþágur að ræða, nokkrar tímabundnar og einnig hafa verið settar sérreglur og undantekningar fyrir svæði og lendur handan hafsins sem tilheyra aðildarríkjunum, eins og til dæmis Kanaríeyjar sem tilheyra Spáni. Vissar lendur og svæði innan marka aðildarríkjanna geta þannig og hafa notið undanþágu frá reglum Evrópusambandsins, það er alveg rétt, en niðurstaða skýrsluhöfunda er samt sem áður sú að tæplega verði séð hvernig unnt yrði að beita þessum ákvæðum til hagsbóta fyrir Ísland í aðildarviðræðum þar sem óraunhæft virðist að hluta landið niður með þessum hætti. Það varðar hugsanlega Vestmannaeyjar og kannski Grímsey og svo er restin ef við berum þetta saman við Kanaríeyjar og Spán. Þetta virðist ekki ganga upp út frá þessari niðurstöðu skýrsluhöfunda.

Svona að lokum um umræðuna um undanþágur og sérlausnir þá kemur fram á bls. 65 í samantektinni að fordæmi séu fyrir tímabundnum undanþágum ef þær eru vel rökstuddar. Slíkar undanþágur halda þó aðeins þann tíma sem þeim er markaður og/eða þar til breyting kann að vera gerð á viðkomandi löggjöf sambandsins. Orðrétt segir skýrsluhöfundur, með leyfi forseta:

„Varast ber að leggja mikið upp úr yfirlýsingum sem fylgja kunna aðildarsamningi, a.m.k. að því er lögfræðilegt gildi þeirra varðar.“

Það var þetta sem ég átti við áðan varðandi sérlausnirnar, þær hafa takmarkað lögfræðilegt gildi þegar á reynir hugsanlega. Það eru ekki mín orð, heldur skýrsluhöfunda.

Að þessu sögðu spyr ég mig: Hvers vegna stend ég hér og tala um þetta mál í dag? Hvers vegna erum við að ræða þetta enn eina ferðina? Liggur málið ekki ljóst fyrir?

Í fyrsta lagi: Ef við ætlum að halda aðildarviðræðum áfram er algert grundvallaratriði að þjóðin vilji ganga í Evrópusambandið. Einnig þarf pólitískur vilji að vera til staðar. Svo er ekki.

Í öðru lagi: Það er alveg ljóst að við getum ekki samið við Evrópusambandið um sjávarútvegsmálin. Dæmin sýna að við munum ekki fá varanlegar undanþágur.

Að þessu sögðu: Hver er þá tilgangurinn með að halda aðildarviðræðum áfram? Við erum ekki að fara að landa feitum samningi við Evrópusambandið, einungis laga okkur að því kerfi sem fyrir er.

Umrædd skýrsla kostaði 25 millj. kr. eins og fram hefur komið. Hún er upp á tæplega 1 þús. blaðsíður. Flestir þingmenn hafa ekki náð að komast yfir allar þær blaðsíður og ég hef ekki komist yfir viðaukana heldur svo að ég segi alveg eins og er. Þetta dugar mér. Niðurstaðan er alveg skýr og ég held að við ættum að fara að snúa okkur að öðru.

En víkjum nú að landbúnaðinum. Sameiginleg landbúnaðarstefna Evópusambandsins á sér langa sögu og nær aftur til ársins 1962. Ítarlega er fjallað um landbúnaðarstefnu ESB á bls. 139–145. Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að íslenskur landbúnaður sé frábrugðinn landbúnaði Evópusambandsins. Starfsumhverfi og lagaumgjörð stuðningskerfisins er ólíkt. Stuðningur við landbúnað er meiri hér á landi en væri samkvæmt styrkjakerfi Evrópusambandsins.

Ágúst Þór Árnason ritaði Viðauka I sem ber heitið Aðildarumsókn Íslands og stækkunarstefna ESB. Þegar rýnt er í þann viðauka, þar sem fjallað er um landbúnaðinn, segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Forsvarsmenn í landbúnaði lýstu strax verulegum áhyggjum af áhrifum aðildar á íslenskan landbúnað. Stuðningur við mjólkurframleiðslu, tollvernd íslensks landbúnaðar og mikilvægi þess að tryggja öflugar sjúkdómavarnir væru stærstu hagsmunamálin og vandséð hvernig hægt væri að ná viðunandi niðurstöðu um þau mál. Dró ekki úr andstöðunni eftir því sem leið á aðildarferlið en á búnaðarþingi 2011 var ályktað um aðildarumsóknina. Efnisleg rök Bændasamtakanna gegn aðild hefðu ekki verið hrakin samanber ályktun búnaðarþings 2010. Aðild muni hafa veruleg neikvæð áhrif á fæðu- og matvælaöryggi og störfum í landbúnaði og tengdum greinum fækka stórlega. Aðildarumsókn Íslands að ESB skapi mikla óvissu í starfsumhverfi landbúnaðarins og dragi þróttinn úr nauðsynlegri endurnýjun og framþróun þann langa tíma sem umsóknarferlið mun standa. Í því ljósi sé farsælast að stjórnvöld dragi umsóknina til baka. Jafnframt sagði í ályktuninni að á árinu 2011 hæfust eiginlegar aðildarviðræður. Var þess svo krafist að umsóknin væri dregin til baka.“

Að þessu sögðu lítur út fyrir að treglega hefði gengið að sætta ólík sjónarmið hér innan lands varðandi landbúnaðinn, kannski ekki tæknilega ómögulegt en mjög fjarstæðukennt engu að síður.

Orka, matur og vatn eru þær auðlindir sem heimurinn mun þurfa mest á að halda í framtíðinni. Við Íslendingar erum einungis 300 þúsund og eigum nóg af þessu öllu saman. Viljum við virkilega setja auðlindir okkar í púkk hjá 500 milljóna manna ríkjasambandi og fylgja sameiginlegri stefnu þess í þessum málum sem öðrum? Í mínum huga er það of mikil áhætta.

Íslendingar hafa alltaf verið í góðu samstarfi við aðrar þjóðir og hyggjast halda því áfram. Við erum hluti af EFTA og erum NATO-þjóð, svo að eitthvað sé nefnt. Við höfum gert nokkra fríverslunarsamninga, þann nýjasta við Kína, og hyggjumst gera fleiri slíka samninga. Íslensk stjórnvöld vilja halda áfram góðu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir og horfa einnig til austurs og vesturs með aukið samstarf í huga. Eins og ég orðaði þetta í grein fyrir skömmu getum við verið vinir án þess að ganga í hjónaband. Ég held að það sé ágætissamlíking.

Evrópusambandið hefur marga kosti, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en umrædd skýrsla rennir hins vegar stoðum undir þá skoðun mína að innganga í Evrópusambandið henti ekki hagsmunum Íslands. Ég tel það því vera algera tíma- og peningasóun að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið þar sem um aðildarviðræður er að ræða, ekki samningaviðræður.