143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:15]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er mjög gott að fá andsvar og upplýsingar frá svo reyndum manni sem áður gegndi starfi utanríkisráðherra. Ég hef í sjálfu sér engu við þetta að bæta. Varðandi Álandseyjar er það þannig eftir sem áður, eins og kemur fram í skýrslunni, að þegar um svokallaðar sérlausnir er að ræða getur Evrópusambandið breytt því ef svo hentar til. Það virðist ekki vera traustur grundvöllur til framtíðar, að mínu mati.

Til upplýsingar fyrir hv. þingmann byrjaði ég ekki að lesa skýrsluna fyrr en í gærmorgun og það dugði mér þó að ég sé ekkert sérstaklega hraðlæs. Ég les aldrei á nóttunni, þá sef ég.