143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Á föstudaginn var var hér dreift tillögu um stórt mál, tillögu um afdrif og framvindu umsóknar um aðild að Evrópusambandinu í miðri umræðu um skýrslu um sama mál. Átti skýrslan ekki að vera grundvöllur ákvörðunartöku? Átti ekki að ræða hana í þinginu og byggja svo á henni? Átti ekki að kynna hana fyrir þjóðinni? Hvað er að frétta af því, virðulegur forseti? Hvernig átti sú kynning að fara fram?

Það er óásættanlegt og lítilsvirðandi við þingið að nú kemur fram í dagsljósið að þessi skýrsla var skrípaleikur frá byrjun. Þingið hefur verið haft að fífli, Hagfræðistofnun hefur verið höfð að fífli og þjóðin hefur verið höfð að fífli.

Ég þakka fyrir að málið hefur verið tekið af dagskrá og vænti þess að það komi ekki þangað aftur nema í samráði við þingflokksformenn eins og vera ber og þá þegar tillögur og breytingartillögur við málið eru fram komnar.