143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra, að rifja það upp að lögð var fram tillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þar sem gert var ráð fyrir að þjóðin kæmi að því að ákveða framtíðarstað sinn, (Gripið fram í.) í Evrópusambandinu eða ekki. Þessi tillaga snýst um það að koma í veg fyrir að þjóðin fái aðkomu, þá aðkomu sem hæstv. fjármálaráðherra (Gripið fram í.) lofaði ítrekað, sýknt og heilagt. Hann lofaði aðkomu þjóðarinnar. Nú á að svipta þjóðina ákvörðunarréttinum og það á að svipta þjóðina réttinum til að taka ákvörðun um eigin örlög.

Virðulegi forseti. Það er fráleitt að búa við þær aðstæður að í stjórnarsáttmála sé sagt að móta eigi utanríkisstefnu á grundvelli skýrslu en sú skýrsla sé ekki lögð fyrir þingið heldur fyrst kynnt í Heimssýn og Morgunblaðinu. Það sé síðan þannig að ríkisstjórnarflokkarnir séu svo veikburða og ráði ekki við eigin stefnumörkun að það séu fyrirmæli úr Heimssýn sem ráði því að dregin skuli til baka aðildarumsóknin áður en umræðu um skýrsluna er lokið. (Forseti hringir.) Svona er nú komið fyrir Sjálfstæðisflokknum.