143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mér heyrðist hæstv. forseti vera að boða hér kvöldfund til að ræða skýrsluna. Það kemur mér mjög á óvart því að það liggur alveg fyrir að ræðutími um hana er takmarkaður samkvæmt þingsköpum og er ljóst að umræðu um hana mun ljúka einhvern tíma á morgun þó að við höldum eðlilegum dampi. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum skýrsluna eins og við höfum verið að gera því að sú umræða hefur verið málefnaleg. Hún átti að verða grundvöllur frekari umræðu í hv. utanríkismálanefnd.

Nú eru þegar byrjaðar að koma fram tillögur. Fyrst kemur tillaga ríkisstjórnarinnar, eins og hér hefur verið lýst, og tillaga kemur í dag frá hv. þingmönnum Pírata áður en við erum einu sinni búin að ljúka umræðu um skýrsluna. Það er mjög eðlilegt að hér streymi inn tillögur til að bregðast við tillögu stjórnvalda.

Ég átta mig ekki alveg á þessum vinnubrögðum. Af hverju er umfjöllun um málið ekki bara lokið í utanríkismálanefnd? Hér hafa verið settar fram veigamiklar athugasemdir, til að mynda frá mér um þá vídd sem ég tel vanta í skýrsluna og ég tel að utanríkismálanefnd gæti unnið gott starf í því að skoða. Er ekki mikilvægt að við fáum þau svör áður (Forseti hringir.) en við förum að ræða tillöguna? (BirgJ: Heyr, heyr.) Væru það ekki vinnubrögð sem við gætum tileinkað okkur hér á þingi?