143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að segja að þegar menn töluðu um svik og forræðishyggju og yfirgang datt mér einna helst í hug hvernig stofnað var til þessa ferlis alls, að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var nákvæmlega með þeim hætti sem menn fóru af stað.

Mig langar hins vegar að nefna hér eitt, [Háreysti í þingsal.] að þegar menn tala um afleiðingar á alþjóðavettvangi minnir það líka á orðræðuna sem margir hér héldu á lofti þegar kom að Icesave. Þá var það sama hrakspáin, hér yrði frostavetur og hér færi allt til fjandans. Við sjáum hvernig það fór allt saman.

Mig langar hins vegar að kvarta yfir vinnubrögðum hæstv. forseta, til þess er ég kominn hingað, að taka það mál sem er nr. 3 á dagskrá án þess að hlusta á rök utanríkisráðherra fyrir málinu. Ég óskaði eftir því að málið yrði á dagskrá áfram og ég skil ekki rökin fyrir því að taka það af. Ég skil þau ekki, ég hef ekki heyrt þau rök.

Þetta er stjórnartillaga, þetta hefur margoft gerst í þinginu, það hefur margoft verið sett tillaga á eftir annarri tillögu á dagskrá. (Gripið fram í.) Ég botna ekkert í því að forseti skuli fara þessa leið. Ég mótmæli því að forseti skuli taka málið af dagskrá.