143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta hér á umræðu um fundarstjórn forseta. Ég er alveg sammála þeim hv. þingmanni sem nefndi að við mættum alls ekki verða eins og á síðasta kjörtímabili undir forustu VG og Samfylkingarinnar.

Forseti fer að óskum stjórnarandstöðunnar og hér koma menn upp undir liðnum fundarstjórn forseta og tala um óhæfuverk, voðaverk. Ég held að allir séu gerðir að fífli einhverra hluta vegna. Uppáhaldið mitt er að vísu að í skjóli nætur — seinni partinn á föstudaginn — hefðu einhverjir skelfilegir hlutir verið gerðir af því að þingmáli var dreift. Forseti segir við stjórnarandstöðuna: Allt í lagi, við skulum bara bíða aðeins með þetta. Og nú skulum við ræða skýrsluna.

Eigum við ekki að gera það? Með fullri virðingu, hvað er verið að hamast á forseta þingsins? Er það vegna þess að hann fór að óskum stjórnarandstöðunnar? Er það það sem er alvarlegt? Er það voðaverkið?

Virðulegi forseti. Við skulum ræða þetta mál því að það er kominn tími til að ræða það, (Forseti hringir.) sem er ESB og hvað það þýðir fyrir Ísland ef við mundum hrökklast þangað inn.