143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að málið hefur verið tekið af dagskrá, enda var fráleitt að mál sem þetta kæmi á dagskrá þingsins eins og raun bar vitni. Við erum að ræða skýrslu sem átti að verða grundvöllur fyrir frekari ákvarðanatöku. Hér er fjöldi þingmanna sem á eftir að tjá sig um málið. Meðferðin og framganga ríkisstjórnarinnar í málinu minnir ekki á lýðræðisstjórn heldur öfgastjórn.

Varðandi það mál sem lá svo á að koma á dagskrá að það var gert með algjörlega óviðunandi hætti þá heyrum við það hér utan af Austurvelli að mörgum borgurum er í brjósti eins og mér þegar þeir hugsa til þess að hin unga ríkisstjórn ætli að brenna framtíðarakra Íslands og strá í þá salti í ofanálag.