143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er ákaflega ósáttur við vinnubrögð hæstv. forseta. Hann er minn forseti, ekki bara vegna þess að ég kaus hann, hann á að vera forseti allra og ég tel að hann hafi tekið þátt í því með framkvæmdarvaldinu að sitja yfir mínum hlut með því að fallast á að dreifa skýrslu Hagfræðistofnunar þannig að ég og aðrir í stjórnarandstöðunni fengum sólarhring til þess að lesa hana á meðan þingmenn stjórnarliðsins fengu kynningu á henni a.m.k. hálfum sólarhring fyrr.

Ósáttastur er ég þó við þann hátt sem hæstv. forseti hafði á því að dreifa þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Ég tel að hæstv. forseti hafi brotið þær vinnureglur sem hafa verið settar um það. Menn geta lesið á vefnum að það er heimilt að útbýta þingmálum á vefnum en meginreglan er sú að það á að gera á þingfundi. Undantekningin er aðeins ef nauðsyn ber til. Það bar enga nauðsyn til. Ég tel að hæstv. forseti hafi gerst sekur um það að verða framlenging á framkvæmdarvaldinu og það er lágmark að hann svari a.m.k.: Hvernig réttlætir hann (Forseti hringir.) með þessum hætti að hann hafi verið í samræmi við sínar eigin verkreglur?