143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Staðan er nokkuð skýr, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vilja hætta þessum aðildarviðræðum. Staðan er samt óþægileg að því leytinu til að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar með orðunum, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Framsóknarflokkurinn er ekki alveg jafn bundinn. Hann orðaði þetta þannig, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn telur hag landsins og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Ef farið er í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram geta báðir flokkarnir uppfyllt sína stefnu. Þetta er þingsályktunartillaga sem við erum búin að leggja fram í þinginu, Píratar, Björt framtíð og Samfylkingin, um að slíkt skuli gera, en það er mjög knappur tími.

Nú ætla ég að spyrja þingforseta hvort hann vilji ekki hraða því máli, það er hægt að gera það í vikunni. Ef það næst ekki í vikunni brennum við á tíma af því að það er bara núna fram á föstudag sem við höfum tíma til þess, annars er ekki hægt að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu því að það þurfa að líða þrír mánuðir á milli til að atkvæðagreiðsla geti átt sér stað. Ég ætla að spyrja forseta: Vill hann flýta þessu máli og koma því á dagskrá í vikunni?