143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ómöguleiki er kannski orðið einkennisheiti á þessari ríkisstjórn, henni er gersamlega ómögulegt að efna nokkurt einasta kosningaloforð. Hún gat ekki efnt það að færa 300 milljarða frá hrægömmum til heimila í landinu. Hún gat ekki efnt loforð um afnám verðtryggingar og núna getur hún ekki efnt loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna áframhaldandi viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Ómöguleiki er algert einkennisorð fyrir þessa ríkisstjórn, henni er gersamlega ómögulegt að efna eitt einasta loforð eða koma einum einasta hlut í verk fyrir þessa þjóð. Það er þess vegna sem menn eru komnir hér fyrir utan í þúsundavís til að láta í sér heyra.

Stóru orðin sem hafa fallið hjá þessari ríkisstjórn eru marklaus, fullkomlega marklaus. Og það er algerlega ljóst að þessi ríkisstjórn ætlaði sér aldrei að hlusta á þjóðina hvað þetta mál varðar, aldrei nokkurn tíma.

Menn sögðu: Við ætlum að leggja fram skýrslu. Í framhaldi af því verður tekin afstaða eftir rækilega kynningu meðal þjóðarinnar. Og hvað gerist? Þingsályktunartillaga tilbúin áður en skýrslan er lögð fram. (Gripið fram í.) Skandall.