143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það skýrir kannski svolítið vanda hæstv. fjármálaráðherra að hann er enn fastur á árinu 2009 og hefur ekki náð að hugsa út fyrir þann dag. Kannski er það það sem skýrir hvernig hann er að koma út úr sínum eigin orðum og yfirlýsingum.

Varðandi hæstv. utanríkisráðherra held ég að sé nauðsynlegt að hæstv. utanríkisráðherra átti sig á því að hann er ekki yfirforseti hér á Alþingi. Hæstv. utanríkisráðherra getur flutt sínar ræður og skrifað sínar greinargerðir, orðið sér til skammar með því eins og hann vill en hann stjórnar ekki þinginu sem betur fer. Ég vil frekar hrósa forseta en hitt fyrir að hafa þó séð að sér og tekið þessa tillögu af dagskrá því að það var auðvitað fráleitt að henda henni hér inn í miðja umræðu um skýrsluna, m.a. vegna þess að stór hluti þingmanna er búinn að nota sína fyrri og lengri ræðu, jafnvel búnir að tala sig dauða í þeirri umræðu. Þá á allt í einu að koma með þessa tillögu inn í miðja þá umræðu. Annaðhvort átti tillagan að liggja fyrir áður en umræðan um skýrsluna hófst þannig að allir töluðu á sömu forsendum út frá því eða það átti ekki að dreifa henni fyrr en þessari umræðu var lokið. Það sér hver maður að (Forseti hringir.)þetta er eins og sprengja inn í miðja umræðu og ekki til að hafa góðan skikk á hlutunum.